138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að þeir aðilar sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, sem eru fyrst og fremst stjórnarandstæðingar, hafi sýnt met í þolinmæði gagnvart virðulegum forseta. Hér hefur hvað eftir annað verið spurt einfaldra spurninga sem væri leikur einn og skylda virðulegs forseta að svara. Virðulegur forseti lætur eins og þetta skipti ekki máli, eins og t.d. sú fyrirspurn sem hér var borin fram í hvað, 15. skipti? Nú má vera, virðulegi forseti, að einhvers staðar eigi við að sýna hroka. Ég veit ekki hvar, ég veit ekki hvenær en ég veit að það á ekki við hér. Ef þetta er línan sem norræna velferðarstjórnin vill hafa í samskiptum verður svo að vera (Forseti hringir.) en enn og aftur fer ég auðmjúklega fram á það við virðulegan forseta að hann svari þeim (Forseti hringir.) sjálfsögðu spurningum sem til hans er beint.