138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. forseti muni nú beina kröftum sínum í að fá upplýsingar um hvort hér hafi verið haldinn ólöglegur fundur þar sem þingpallar hafa verið óaðgengilegir íslenskum borgurum. Ég undra mig á því hvers vegna það hafi tekið u.þ.b. 17 athugasemdir við fundarstjórn forseta og tæplega tvær klukkustundir að fá nokkur svör. Ég áætla að ekki sé styttra síðan hv. þingmenn byrjuðu að spyrja hæstv. forseta um þetta. Ég fagna því engu að síður að nú sé loks brugðist við og leitast við að leiðrétta þetta. Ég tel að fram þurfi að fara einhvers konar athugun á því hvernig, ef rétt er, svona hlutir koma til og hvaða ástæður liggja hér að baki. Það er gríðarlega alvarlegt mál ef rétt er (Forseti hringir.) að fólk komi hér að luktum dyrum þegar verið er (Forseti hringir.) að ræða þetta mikilvæga mál.