138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi fyrir margt löngu hér í ræðustól, (Gripið fram í: Þrjú.) klukkan þrjú í nótt nefndi hv. þm. Birgir Ármannsson það að til hans hefði leitað einstaklingur sem hefði reynt að komst á þingpalla til að fylgjast með umræðum. Síðan eru liðnir tveir tímar. Nú kemur fram hjá hæstv. forseta að hann hafi gert ráðstafanir til að kanna málið tveimur tímum síðar og hafi enn ekki fengið svar. Þetta, herra forseti, er alveg furðuleg fundarstjórn og að sjálfsögðu verður þetta mál tekið upp.

Hitt vil ég segja og er nauðsynlegt að komi fram — ég skora á hæstv. forseta að hlýða vel á mál mitt og það sem ég segi nú — að fundarstjórn með þessum hætti er til þess fallin að draga úr líkum á því að samkomulag náist um þingstörf. Ég bið hæstv. forseta að hugleiða það sem ég segi nú og breyta fundarstjórn sinni ef honum er annt um að ná einhverri samstöðu hér í þinginu. Ábyrgð (Forseti hringir.) forseta er mikil. (Gripið fram í: Rétt.)