138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér í dag hafa farið fram mjög efnismiklar umræður um þetta mikla mál sem sumir vilja kalla eitt stærsta mál Íslandssögunnar og ég er ein þeirra. Því var mjög dapurlegt að sitja í þingsalnum í kvöld og upplifa að hv. þm. Birgir Ármannsson fékk skilaboð utan frá dyrum Alþingishússins frá einstaklingum sem höfðu hugsað sér að koma á þingpalla til að hlýða á umræðurnar en komu að luktum dyrum. Í 57. gr. stjórnarskrárinnar segir að fundir Alþingis skulu haldnir í heyranda hljóði. Þá kemur það sama jafnframt fram í 69. gr. þingskapa Alþingis að þingfundir skulu haldnir í heyranda hljóði. Það þarf að gera umfangsmikla könnun á því hvort það standi og sé rétt að hér hafi fólk komið að luktum dyrum. Það er mjög alvarlegt mál og slíkar athugasemdir ber að taka mjög alvarlega.

Ég hef undirritað eins og allir aðrir þingmenn á Alþingi drengskaparheit að stjórnarskránni og mér ber sem kjörnum fulltrúa að gæta þess að stjórnarskrá Alþingis sé ekki brotin. Mér þykir mjög miður að hafa það á tilfinningunni í kvöld að slíkar athugasemdir séu fundnar léttvægar og það taki heila tvo tíma að athuga hvort hér fari fram óleyfilegur fundur Alþingis, að því leyti að hér hafi ekki verið opinn fundur fyrir almenning til að koma og hlýða á umræður í einu af stærstu málum Íslandssögunnar. Ég er mjög döpur yfir því að þetta séu vinnubrögðin og ég hvet hv. stjórnarliða til að reyna nú að skoða hug sinn og fara að vinna betur að þessum málum og skapa meiri sátt um þingstörfin vegna þess að þetta er ekki til fyrirmyndar.

Herra forseti. Í dag hefur mikið verið rætt um fullveldi Íslands og þær athugasemdir sem nokkrir virðulegir lögmenn hér í bæ hafa gert varðandi það álitaefni hvort þetta mál og það frumvarp sem hér er rætt brjóti gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta eru athugasemdir sem ber að taka alvarlega og ber að fara ítarlega yfir. Nú hafa skapast töluverðar umræður um það í hliðarsal, heyri ég enn og aftur, — herra forseti, gæti ég fengið hljóð þannig að fólk geti hlýtt á ræðu mína. (Forseti hringir.) Nú hafa skapast umræður um það í þingsalnum hvort það sé rétt að vafi leiki á því að þetta frumvarp sé í samræmi við stjórnarskrána og hv. formaður fjárlaganefndar hefur setið í hliðarsal og komið með einstaka athugasemdir um hvernig þetta sé. Nú bar svo við að ég fór upp undir liðnum fundarstjórn forseta og óskaði eftir því að forseti beitti sér fyrir því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson kæmi í ræðustól og upplýsti okkur um hvernig málum hefði verið háttað í fjárlaganefnd þar sem það var augljóst að mönnum bar ekki saman um hvað þar hefði farið fram. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem sátu þennan fund komu hingað upp og höfðu á því ákveðnar skoðanir hvað þar færi fram en síðan heyrði maður úr hliðarsölum athugasemdir um að þetta væri einfaldlega ekki rétt. Þess vegna er ófært að í ljósi þess að sú ríkisstjórn sem hefur talað í hverri ræðunni á fætur annarri um að hér skuli viðhafa gagnrýnin vinnubrögð, opna stjórnsýslu og lýðræðislega starfshætti, að hv. formaður fjárlaganefndar skuli ekki sjá sér fært að koma í ræðu og útskýra ítarlega í hverju þessi ágreiningur þeirra sem sátu á fundinum um hvað þar hefði farið fram sé þá falinn.

Ég tel, herra forseti, að það sé gríðarlega mikilvægt að við á Alþingi ræðum þetta og höfum á borðinu athugasemdir frá lærðum mönnum um að hér séu hugsanlega umræður um frumvarp sem brjóti gegn stjórnarskránni. Ég tel einfaldlega gríðarlega mikilvægt fyrir alla aðila og ekki síst þá sem mótmæla því að þessar skoðanir og þessi sjónarmið séu rétt að rökstuðningur hv. þingmanna stjórnarliða komi inn í þingtíðindin, hvers vegna þeir ætli sér að virða að engu þessar athugasemdir eða fallist ekki á þær og af hverju þeir telja þær þá ekki réttar. Ég tel það einfaldlega mikilvægt fyrir söguna vegna þess að við skulum öll átta okkur á því að hér erum við að ræða eitt stærsta og umfangsmesta mál lýðveldissögunnar og þeir sem á eftir okkur koma í þingsal og koma til með að standa undir þeim greiðslum sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir að leggja á þjóðina vilja vita hvað við vorum að ræða, hvað við gerðum, hvað við höfðum til málanna að leggja og hvað einstaka þingmenn höfðu í huga þegar þeir tóku ákvörðun í þessu máli. Við skulum ekki gleyma því og við skulum ekki finna þessi sjónarmið léttvæg. Þess vegna hvet ég hv. formann fjárlaganefndar enn og aftur til að setja sig á mælendaskrá, ekki síst til að koma því á spjöld þingsögunnar hver rökstuðningurinn er fyrir því að hans mati, og þá væntanlega stjórnarliða, að þessar hugleiðingar prófessors Sigurðar Líndals eigi ekki við rök að styðjast.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að vitna í frétt á mbl.is þar sem tekið er viðtal við Sigurð Líndal. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Icesave-frumvarpið skerðir fullveldi Íslands að mati Sigurðar Líndals lagaprófessors. Hann segir það eðli dómsvalds að dómur sé endanleg niðurstaða máls. Sigurður telur að ráðgefandi álit, eins og fram kemur í annarri grein frumvarps um ríkisábyrgð vegna Icesave, ekki standast stjórnarskrána. Hluti af sjálfstæðisbaráttunni hafi verið að fá dómsvaldið til landsins og því sé slíkt samkomulag afsal fullveldis.“

Herra forseti, afsal fullveldis. Þetta eru stór orð og þung. Þetta eru athugasemdir frá virtum fræðimanni sem við skulum ekki virða að vettugi og ekki láta eins og séu léttvægar. Þess vegna mæli ég enn og aftur með því, hæstv. forseti, að formaður fjárlaganefndar láti svo lítið að útskýra fyrir okkur þar sem hann heldur því fram, heyrði ég í frammíköllum úr hliðarsalnum fyrr í kvöld, að þetta hafi einfaldlega verið útskýrt í nefndinni, eigi alls ekki við rök að styðjast og það hafi verið alger niðurstaða nefndarinnar. Var það þá rætt á milli nefndarmanna eftir að þessir virðulegu fulltrúar komu fyrir nefndina og lýstu sínum sjónarmiðum? Var það rætt í hörgul og var tekin ákvörðun um það í nefndinni? Af hverju liggur það þá ekki fyrir? Er það feimnismál hjá hv. nefndarmönnum úr stjórnarliðinu að koma hingað og rökstyðja sitt mál? Ég tel að það væri gott fyrir málið og gott fyrir umræðuna svo við stöndum ekki hér allan daginn á morgun að reyna að fá þetta fram en fáum engin svör nema einstaka frammíkall o.s.frv. Það er einfaldlega enginn bragur að því, herra forseti. (Gripið fram í: Formaður Sjálfstæðisflokksins …)

Herra forseti. Enn og aftur vil ég skora á þá þingmenn sem sitja í salnum og hlýða á mál mitt, sem og þá sem heima sitja og hlýða á mál mitt, að skoða hug sinn enn og aftur og þá tala ég sérstaklega til þess hóps sem situr í stjórnarliðinu. Eru hv. þingmenn þess fullvissir að það frumvarp sem við ræðum nú sé besta lausnin í þessu máli? Eru menn í hjarta sínu virkilega sannfærðir um það? Ég tel mikinn vafa á því og ég er alls ekki á því að við eigum að gefast upp og samþykkja þetta mál eins og það liggur fyrir. Þvert á móti. Ég vil skora á hv. þingmenn, hugrakka menn og konur úr stjórn og stjórnarandstöðu, að setjast nú saman líkt og gert var í sumar og finna aðra leið út úr þessu máli. Þetta er ekki það sem við eigum að vera að gera á þingi að samþykkja frumvarp af þessu tagi. Þetta er ekki ásættanleg niðurstaða. Við ráðum ekki við þessar skuldbindingar. Vaxtaákvæðið eitt og sér sem er gerbreyting frá því sem samþykkt var hér í sumar sem lög frá Alþingi er einfaldlega ekki ásættanlegt og ekki forsvaranlegt að það fari í gegn. Við getum ekki látið þetta gerast. Ég er fullviss um að það finnast stjórnarþingmenn sem ekki eru vissir um að þetta sé rétta leiðin þrátt fyrir að hér hafi bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra talað um að svo sé. Ég er fullviss um að til séu menn á Alþingi sem vilji leita annarra leiða og ég hvet einfaldlega til þess, herra forseti, að það verði gert.