138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér skilst að einmitt á fundum fjárlaganefndar hafi að lokum orðið samstaða um að frekari könnun þessa máls færi fram þegar málið gengi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. eins og mun gerast þegar þessari umræðu lýkur og þá geta menn farið betur yfir þau álitamál sem menn telja vera uppi.

Það kann að vera að þetta mál sé nýtt fyrir hv. stjórnarandstöðuþingmönnum og eðlilega vilja menn þá skoða það og það er rétt og skylt, en það er engan veginn þannig að það sé framandi þeim sem hafa unnið að þessu máli eða undirbúið framlagningu þess á Alþingi. Það var einmitt þannig að hópur lögfræðinga var stjórnvöldum til aðstoðar þegar verið var að leggja lokadrög að þessu samkomulagi. Þetta atriði t.d. var margrætt, ég sat fundi með 5–6 lögfræðingum þar sem þetta var skoðað, þessi frágangur málsins sem frumvarpið ber með sér og viðaukasamningarnir fela í sér. Í þeim hópi voru þá engar efasemdir um að þetta væri vandkvæðum bundið hvorki gagnvart stjórnarskrá né á annan hátt. Ég var að reyna að útskýra hvers vegna það varð niðurstaða manna að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, sem í máli af þessu tagi yrði væntanlega alltaf leitað hvort eð er, vegna þess að það varðar túlkun á evrópskum reglum og samræmi þeirra við íslenskan skiptarétt, að það væri engum vandkvæðum bundið af þessu tagi. Og eins og ég áður sagði væru réttaráhrif af annarri niðurstöðu eða áliti EFTA-dómstólsins en íslenskra dómstóla eingöngu þau sem sneru að innihaldi samninganna og því hvort jafngreiðsluákvæðum þeirra yrði rutt til hliðar. Ég held að þegar þetta mál er betur skoðað (Forseti hringir.) muni koma í ljós að menn hafa hér, sem betur fer, áhyggjur að óþörfu.