138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

skuldastaða þjóðarinnar.

[10:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í greinargerð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í nóvember á síðasta ári kom fram að skuldsetning þjóðarinnar upp á 240% af landsframleiðslu væri augljóslega óviðráðanleg, þ.e. ekki væri hægt að standa undir slíkum skuldum. Síðar hefur komið í ljós að hlutfallið væri komið í 310% og var þá reynt að halda því fram að við þetta mætti ráða með ýmsum aðferðum sem ekki er tími til að rekja hér en standast þó fæstar nánari skoðun. Síðasta vor spurði ég hæstv. fjármálaráðherra, eftir að hafa heyrt af því að verið væri að ganga frá samningum um Icesave, samningnum ógurlega sem við erum enn að ræða hér, þá spurði ég ráðherrann hvort þetta væri rétt, hvort verið væri að ganga frá slíkum samningum. Hann þrætti fyrir það, sagði að langt væri í slíka samninga en tveimur dögum síðar kom annað á daginn.

Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Er það rétt að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem staddir eru á Íslandi hafi komist að því að skuldastaða þjóðarinnar sé ekki aðeins 310% af landsframleiðslu heldur töluvert hærri en það og það hafi vakið talsverða undrun og valdið fjaðrafoki í Washington þar sem menn hafa áhyggjur af skuldastöðu þjóðarinnar, og hvernig eigi að réttlæta það að hún sé enn viðráðanleg? Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra líka hvort þetta hafi eitthvað með það að gera að hann er hér að reyna með öllum tiltækum ráðum að keyra frumvarp sitt um Icesave-samningana í gegn. Vill hann að gengið sé frá því áður en nýjar tölur um skuldastöðu þjóðarinnar koma í ljós?