138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

skuldastaða þjóðarinnar.

[10:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég veit af fenginni reynslu að hv. þingmaður verður alltaf svolítið vonsvikinn ef koma góðar fréttir og ef hann fær ekki sína sótsvörtu framtíðarsýn fyrir hönd Íslands staðfesta, að hér séum við í þann veginn að fara á hausinn eða það sé þegar brostinn á eða muni bresta á stórfelldur landflótti. Því miður er það þannig í þessum þingsölum að eitthvað af nýkjörnum þingmönnum þjóðarinnar frá síðasta vori notar yfirleitt tækifærið í ræðustóli og reynir að hræða fólk úr landi eða sannfæra okkur um að við séum komin í óviðráðanlega skuldagíslingu. (Gripið fram í: Hann varaði við.) Það er afar uppbyggileg leiðsögn (Gripið fram í.) sem þjóðin fær frá sínum kjörnu fulltrúum hér á köflum þar sem allt er gert til að reyna að tala úr henni kjarkinn og draga úr trú hennar á framtíðina í þessu landi. Ég öfunda hvorki hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson né aðra af því hlutverki sínu sem þeir leika í þessum efnum. Staða Íslands er á margan hátt betri en við gátum átt von á fyrir hálfu ári eða svo og okkur hefur miðað vel áleiðis út úr þessum erfiðleikum og flestar kennitölur hvað varðar þjóðartekjur, atvinnuleysi og jafnvel skuldir, nettóskuldir, eru betri en við áttum von á þá.