138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

orð fjármálaráðherra um AGS og ESB.

[10:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Í gær flutti hæstv. fjármálaráðherra ræðu sem í rauninni vakti fleiri spurningar en að hún svaraði einhverjum af þeim fjölmörgu spurningum sem við þingmenn höfum verið að bera fram í umræðum um Icesave. Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra snertir það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær en hann sagði m.a. að ESB hefði haft uppi grímulausar hótanir gagnvart Íslandi vegna Icesave og endurskoðun efnahagsáætlunar hefði verið í gíslingu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna Icesave. Þessi ummæli stangast algerlega á við það sem Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur sagt. Vissulega svaraði fjármálaráðherra í gær að Hollendingar og Bretar hefðu ekki haft í hótunum en engu að síður undirstrikaði hann það að ESB hefði haldið uppi grímulausum hótunum gagnvart Íslendingum og við hefðum verra af, eins og hæstv. fjármálaráðherra orðaði það í gær, ef Íslendingar drifu sig ekki í að klára Icesave. Þess vegna vil ég gjarnan fá að vita hver hefur rétt fyrir sér, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða fjármálaráðherra. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita hvað er satt og rétt í þessu máli og ég vil gjarnan þá vita líka hvaða viðbrögð voru höfð uppi af hálfu forsætisráðherra þegar þessar hótanir voru af því að fjármálaráðherra upplýsti okkur um það í gær að hann vissi þetta manna best sjálfur af því að hann hefði verið í þessum viðræðum og því spyr ég: Hvaða viðbrögð komu fram af hálfu forsætisráðherra? Hver er að segja satt og hver er að segja ósatt?