138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

orð fjármálaráðherra um AGS og ESB.

[10:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Enn og aftur verða ráðherrar í ríkisstjórn Íslands margsaga, dag eftir dag. Ég er búin að fá svör við því frá hæstv. fjármálaráðherra um að það voru ekki Bretar sem settu á okkur þennan þrýsting heldur eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði orðrétt að aðilar innan Evrópusambandsins höfðu uppi grímulausar hótanir (Gripið fram í.) um að Íslendingar hefðu verra af ef þeir drifu sig ekki í að klára Icesave. Ráðherrarnir eru enn og aftur margsaga, það er eins og þau viti ekki alveg hvað fer fram innan ríkisstjórnarinnar.

En um hvað snýst málið í dag? Það snýst um það, þessi umræða af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni er ákall okkar um að við sýnum samstöðu, ákall okkar til ríkisstjórnar Íslands. Þetta snýst ekki um það að koma ykkur frá, þið eruð fullfær um að stúta ykkur sjálf. (Forseti hringir.) Þetta snýst um það að við sýnum samstöðu í málefnum sem tengjast Icesave, samstöðu þings og samstöðu þjóðar. (Forseti hringir.) Það eru komnar 20 þúsund undirskriftir hjá Indefence.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða hefðbundið ræðuform í þingsal.)