138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil koma hér í upphafi þessarar atkvæðagreiðslu til að ítreka enn á ný það tilboð okkar sjálfstæðismanna og annarra stjórnarandstöðuflokka um að hér verði meira samstarf um dagskrána. Við erum algerlega tilbúin til þess eins og við höfum ítrekað að hleypa að þeim brýnu málum sem við þurfum að afgreiða fyrir áramót og ríkisstjórnin leggur kapp á að afgreiða, setja þau í forgang og setja umræðuna um Icesave, sem hvergi nærri er lokið, til hliðar og greiða fyrir störfum þingsins þannig að við getum öll gætt þess að sinna skyldum okkar á hinu háa Alþingi. Þessi tillaga hefur verið lögð fram aftur og ítrekað en mér þótti ástæða til þess þar sem hún virðist ekki ná í gegn að ítreka hana hér eina ferðina enn. Ég segi nei við þessari tillögu, frú forseti.