138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar held ég að það væri kannski rétt að tala um að það sé rándýrt að ...

(Forseti (ÁRJ): Gera grein fyrir atkvæði sínu.)

Ég ætla að gera það, ég ætla aðeins að bæta því við að þar sem hann taldi að það væri rándýrt að við tækjum upp og ræddum ítarlega alla galla og hættur við Icesave-samninginn þá er það mun dýrara að taka þær kvaðir á sig án þess að skoða málið til hlítar. (Gripið fram í.) Við höfum ekkert við það að athuga, stjórnarandstaðan, að ræða það mál en við höfum hins vegar margoft boðið það, og ég kem upp til að ítreka stuðning okkar framsóknarmanna við það, að taka önnur mikilvægari mál á dagskrá þar sem það hefur margoft komið fram líka á síðustu dögum í þessari miklu umræðu að það er ekkert sem liggur á að klára Icesave-samninginn. Það eru engar hótanir, við heyrðum það rétt áðan, það eru engar hótanir núna frá Evrópusambandinu eða neinum öðrum, þannig að okkur ætti að vera í lófa lagið að taka það mál til gagngerðrar endurskoðunar og halda eðlilegri dagskrá í staðinn (Forseti hringir.) fyrir að standa hér sleitulaust eins og rætt hefur verið og halda okkur þingmönnum hér og reyna með ofbeldi (Forseti hringir.) að taka þetta mál í gegn með látum. Ég segi því nei við þessari tillögu.