138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti, með leyfi:

„Ég vil hins vegar gera athugasemdir við það hvernig þinginu er stjórnað á fundum hér. Í upphafi þessa þings ræddi forseti þingsins […] sérstaklega um að nú yrðu breytt vinnubrögð. Tekið yrði tillit til þess að sumir þingmenn — eins og ég [þ.e. þáverandi hv. þm. Össur Skarphéðinsson] og hv. þm. Hlynur Hallsson og þeir ágætu þingmenn sem standa hér í gættinni, hv. þingmenn Helgi Hjörvar og Björgvin Sigurðsson — ættu ung börn. Þurfum við ekki líka að fá frelsi til að sinna þeim? Höfum við ekki líka skyldur gagnvart þeim? Ég mundi ekki tala svona [segir þáverandi hv. þm. Össur Skarphéðinsson] nema vegna þess að það voru gefin fyrirheit af hálfu hæstv. forseta.“

Þessir þingmenn þurftu frelsi þá til að sinna sínum börnum en þurfa ekki að gera það núna. Gott og vel. Í millitíðinni erum við búin að breyta þingsköpum sem hafa það nú að markmiði að gera þingið fjölskylduvænna. Þingsköpin takmarka rétt stjórnarandstöðunnar, sögðu þáverandi þingmenn sem núna eru orðnir ráðherrar. Og núna nýtum við okkur þennan takmarkaða rétt, sem er ákall um samstöðu þingsins, ég ítreka það. (Forseti hringir.) Ég hef ekki enn þá fengið svar við því af hverju ríkisstjórnin getur ekki komið í lið með okkur og staðið vörð um hagsmuni Íslands. Menn skulu hafa það í huga.