138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Vegna orða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar áðan vil ég líka spyrja hann: Var eitthvað í samkomulaginu á mánudag sem við stóðum ekki við? Við stóðum við hvert einasta orð og við undirstrikum það og viljum sérstaklega ítreka það hér sem margoft hefur verið sagt að við viljum greiða fyrir málum ríkisstjórnarinnar, hversu vitlaus sem þau kunna að vera. En við skulum greiða fyrir öllum öðrum málum ríkisstjórnarinnar, skattahækkunum, fjáraukanum, eða hvað það er, til að ræða það og gera hlé á Icesave-umræðunni. Enda hefur komið í ljós að þær hótanir sem var verið að dylgja um í gær eiga greinilega ekki við rök að styðjast, ef ég á að taka mark á forsætisráðherra, en ef ég sný mér hingað á ég að taka mark á fjármálaráðherra og ég veit ekki hvorum ég á að taka mark á. En alla vega er alveg búið að sýna fram á að það er enginn þrýstingur lengur á að við klárum Icesave einn tveir og þrír, eini þrýstingurinn er taugaveiklun ríkisstjórnarflokkanna. Ég ítreka að ég held miklu frekar að við eigum að fara saman í það að standa vörð um íslenska hagsmuni tengdum Icesave. Ég ítreka það tilboð okkar.