138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:40]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hefur margt verið sagt undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, og ég hef verið dálítið undrandi yfir því að frá því kl. 11.10 að morgni hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar gert athugasemdir við að hér verði fundir hugsanlega í nótt. Ég held að forseti ætti að kalla eftir því að fá handrit stjórnarandstöðunnar að þessu þinghaldi. Þær yfirlýsingar sem hér hafa fallið segja mér að hér segi handritið að það verði næturfundur í nótt. (Gripið fram í: Þetta er skipulögð …) Hvernig væri, virðulegi forseti, að kallað yrði eftir þessu þannig að þeir sem stýra þinginu raunverulega segi til um hvernig þingstörfum verður háttað á næstunni, þannig að það liggi fyrir?

Á meðan þetta á sér stað, virðulegi forseti, gerist nokkuð úti í þjóðfélaginu sem hv. þingmenn virðast ekki gera sér grein fyrir, að Norræni fjárfestingarbankinn sendir sveitarfélögum og Lánasjóði sveitarfélaga erindi um að vextir á þeim lánum (Forseti hringir.) sem komin eru til endurskoðunar verði hækkaðir umtalsvert (Forseti hringir.) og ástæðan er lánshæfismatið. Virðulegi forseti. Þetta segir okkur (Forseti hringir.) að þingforseti verður að kalla eftir þessu handriti (Forseti hringir.) til að menn geti farið að ganga til verka eftir einhverju skipulagi.