138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að hæstv. ráðherrar eru farnir að manna sig upp í að koma upp í ræðustól. Hingað til hefur framlag þeirra til umræðunnar um Icesave nánast eingöngu falist í því að vera með frammíköll með fáeinum undantekningum. Þetta er þó alla vega vísbending um að þeir séu smám saman að tala í sig kjark og munu þá blanda sér í þá efnislegu umræðu sem þarf að eiga sér stað um Icesave sem og skoðanaskipti milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Hér kvartaði stjórnarliði mjög undan í dag að ekki hefði komið neitt nýtt fram. Ég harma að hann skuli ekki hafa tekið eftir því og það þýðir að við þurfum að halda áfram þessari umræðu til að skýra okkar mál betur, til að útskýra fyrir stjórnarliðum þau fjölmörgu nýju álitamál sem upp hafa komið í þessari umræðu. Ég hafði gert mér í hugarlund að þessi umræða gæti farið að styttast en nú virðist mér það vera borin von vegna þess að stjórnarliðar hafa ekki enn þá meðtekið það sem við höfum fært fram.

Hvers vegna erum við að mótmæla dagskránni núna? Það er vegna þess að við teljum að það sé skynsamlegra og eðlilegra að taka fyrir önnur mál sem eru á dagskránni en þetta Icesave-mál, (Forseti hringir.) að fresta því og taka fyrir þau mál sem eru (Gripið fram í: Ákvarðanafælni.) mikilvæg til að fjalla um fjárlögin. Það er ekki (Forseti hringir.) ákvarðanafælni. Það eru stjórnarliðar sem eru ákvarðanafælnir. (VigH: Rétt.) Þeir eru hræddir við þennan ræðustól, (Forseti hringir.) þeir vilja ekki ræða um Icesave-málið og þora ekki að ræða um skattamálin. (VigH: Rétt.)