138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég var orðinn dálítið langeygur eftir því að komast í ræðustól til að ræða þó nokkuð marga punkta. Ég hugsa að ég komist ekki frekar en endranær yfir þá alla, en ég ætla sem sagt að ræða um ræðu fjármálaráðherra Hollands sem hann hélt 3. mars sl. Að því loknu ætla ég að reyna að komast yfir í reglugerðir Evrópusambandsins um innlánstryggingar, alveg sérstaklega um breytingar á nýrri reglugerð sem lítið sem ekkert hefur verið rædd. Ég hugsa að tíminn nái ekki lengra, frú forseti.

Hæstv. fjármálaráðherra Hollands er sá sem samdi við hæstv. fjármálaráðherra okkar. Hann hélt ræðu 3. mars sl., ég bið menn að taka eftir því, frú forseti, þrem mánuðum áður en hann gerði samning við Ísland. Sú ræða er þannig að við gætum eiginlega notað þennan mann sem talsmann okkar. Hann byrjar á að segja að það að ráða við kreppuna — ég reyni að þýða, frú forseti, en það getur vel verið að þýðingin sé ekki alveg hárnákvæm og langt í frá — sé mjög erfitt vegna þess að skotmarkið hreyfist. Í því er þó einn miðlægur þáttur, traust, þ.e. tap trausts og hvernig við ætlum að endurvekja það skref fyrir skref. Þetta segir fjármálaráðherra Hollands 3. mars. Síðan segir hann dálítið seinna í ræðunni:

Aðalspurningin sem við þurfum að spyrja er: Hvernig komum við í veg fyrir það að ríkisstjórnir og þar með skattgreiðendur fari hlaðnir inn í framtíðina af áhættu upp á hundruð og þúsundir milljarða evra, fjárhagslegri áhættu til að viðhalda fjárhagslegum stöðugleika?

Þetta segir fjármálaráðherra Hollands 3. mars og það hefur ekki komið inn í umræðuna um Icesave fyrr. Hann segir:

Það var örugglega ekki tilgangurinn. Hvers vegna ekki? Vegna þess — og nú bið ég hv. þingmenn að hlusta vel — að skattgreiðendur hafa aldrei óskað eftir þessari áhættu.

Fjármálaráðherra Hollands segir að skattgreiðendur hafi aldrei óskað eftir þessari áhættu og sá sami semur svo við fjármálaráðherra Íslands um að skella áhættu á íslenska skattgreiðendur. Það er með ólíkindum, frú forseti, að samninganefndin okkar skuli ekki hafa lesið þessa ræðu því að hún var á netinu á ensku á vef fjármálaráðuneytis Hollands. Þessa ræðu hélt hann fyrir bankageirann í Hollandi. Hann segir sem sagt, ég ætla að endurtaka það:

Vegna þess að skattgreiðendur hafa aldrei óskað eftir þessari áhættu.

Hann kom með nokkrar spurningar, m.a.:

Hvernig getum við verndað innlánseigandann í Hollandi? Við höfum nýlega uppgötvað hvernig Icesave hrundi.

Þá nefnir hann það, Icesave.

Mörg fyrirtæki og stofnanir jafnt sem einstaklingar höfðu lagt inn peninga á Icesave. Með því að vinna náið með hollenska seðlabankanum hefur sem betur fer tekist að tryggja innstæður þessara innlánseigenda upp að 100.000 evrum. Spurningin er: Hvernig förum við að því að ná því að tryggja innlánseigendur? Fyrst og fremst með því að evrópsk lönd þurfa að horfa á það hvernig innlánstryggingarkerfið hefur verið skipulagt.

Hann setur þarna sem sagt spurningarmerki við innlánstryggingarkerfið í Evrópu þrem mánuðum áður en hann samdi við Ísland. Síðan segir hann og ég ætla að lesa það á ensku fyrst, frú forseti, til að hafa það alveg á tæru:

„It was not designed to deal with a systemic crisis but with the collapse of a single bank.“ — Það var ekki hannað til að ráða við heildarhrun, heldur til að ráða við það ef einn banki fer á hausinn.

Þetta segir fjármálaráðherra Hollands, frú forseti, þrem mánuðum áður en hann semur við Íslendinga sem lentu í heildarhruni um að skattgreiðendur hér greiði þetta. Ég er alveg gáttaður, frú forseti, á að samninganefndin okkar skuli ekki hafa lesið þessa ræðu. Ég mundi segja að þetta væri okkar maður, við eigum að ráða þennan mann í vinnu til að semja við hollensk yfirvöld. Síðan segir hann:

En það er sama hvernig við hönnum innlánstryggingarkerfið. Innlánseigandinn hefur alltaf ákveðna ábyrgð á kerfinu.

Svo segir hann:

„Innlán eru öruggasta aðferðin til að fara með fjármagn en það er aldrei 100% öruggt.“

Þetta segir hann. Svo segir hann mjög merkilega setningu, frú forseti:

„Það að óska eftir 0,5% meiri vöxtum veldur stundum því að menn óska þá eftir meiri áhættu.“

Það að óska eftir 0,5% meiri vöxtum þýðir að menn óska eftir meiri áhættu. Hann segir sem sagt að þeir sem lögðu inn á Icesave-reikningana vegna hærri vaxta hafi tekið áhættu en íslenskir skattgreiðendur skuli samt borga þetta allt saman vegna samninga sem hæstv. fjármálaráðherra okkar gerði við þennan mann.

Svo fer hann í gegnum það hvað fjármálastofnanir geta orðið stórar og það er mjög athyglisvert, frú forseti. Hann segir:

„Annar mikill veikleiki er að sumar fjármálastofnanir vaxa svo mikið að það er ómögulegt að bjarga þeim.“

Ég ætla að endurtaka: Annar stór veikleiki í kerfinu er að sumar fjármálastofnanir vaxa svo mikið að það er ómögulegt að bjarga þeim.

Svo kemur mjög skemmtileg hugleiðing, frú forseti: „Hvert er hámark þess sem banki getur orðið þannig að það sé raunhæft að ríkisvæða?“ Hvert er hámark þess sem banki getur orðið þannig að það sé raunhæft að bjarga honum með ríkisvæðingu? Ættu eignirnar að vera undir 50% af landsframleiðslu, ættu þær að vera 100% eða 150%?

Frú forseti. Þessi maður var að semja við land þar sem lánardrottnar höfðu lánað bönkum upp undir 500% af landsframleiðslu og hann er að hugleiða um 50–100%. Hann segir að það sé orðið of stórt fyrir framleiðslu síns lands. Svo setur hann fram mjög athyglisverða spurningu:

„Getur banki orðið of stór til að hægt sé að bjarga honum?“ Í hlutfalli þá við landsframleiðslu.

Frú forseti. Þetta er maðurinn sem samninganefndin okkar samdi við og hann sagði að kerfið ætti að ráða við einn og einn banka en alls ekki heildarhrun. Samt er samið við þennan mann um að íslenskir skattgreiðendur, sem eiga ekki að taka þessa áhættu eins og hann sagði, eigi að borga þó að hér hafi orðið kerfishrun. 80% af fjármálamarkaðnum hrundi á einni viku. Ég er ansi hræddur um það, frú forseti, að íslenskir samningamenn hafi ekki lesið þessa ræðu. Hún hefur eiginlega ekkert komið inn í umræðuna þannig að þeir sem kvarta undan því að hér sé ekkert nýtt, eins og sumir hv. þingmenn, ættu kannski að leggja eyrun við.

Nú er tíma mínum lokið en ég var með þrjár hugmyndir sem ég nefndi fyrir síðustu jól. Það þarf að búa til einn sjóð fyrir alla Evrópu. Sá sjóður þarf að geta stöðvað innlán ef vextir eru of háir eða vöxtur of mikill og í þriðja lagi þarf að vera forgangur innlána í þrotabú innlánastofnana. Evrópusambandið er ekkert að gera af þessu, ekkert. Þetta held ég að sé nauðsynleg forsenda, en nú er tíma mínum lokið og mér tókst ekki að fara í fleiri þætti.