138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka það fram í upphafi að ég er ekki að tala út frá excel-skjali. Ég tala út af mínum brennandi áhuga á þessu máli og þessari áþján sem verið er að leggja á íslenska þjóð. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Péturs Blöndals af því hvað stjórnarþingmenn virðast vera illa að sér í þessu máli og virðast ekki átta sig á þeim hættum sem stjórnarandstaðan hefur verið að færa fram í öllum þessum umræðum. Eins og kom fram í máli hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar heyrði hann enga nýja punkta í nótt en þeir voru ansi margir.

Þar sem þetta er allt saman tekið upp sem hér fer fram og þýtt yfir á hollensku og ensku er rétt að upplýsa að ég álít að Íslendingar séu hin nýja auðlind Breta og Hollendinga, svo þeir viti það, vegna vaxtamunar sem þeir leggja á okkur sem þjóð. Ég ætla að spyrja þingmanninn nokkurs af því að hann kom inn á háa vexti versus meiri áhættu: Telja Bretar og Hollendingar mikla áhættu á bak við Icesave-samningana fyrst vextirnir eru svo háir, 5,55%?