138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að Bretar og Hollendingar hafi ekki mætt neinni mótspyrnu við þessa vexti. Þeir eru svo háir að ég hugsa að „junk bond“ vextir, þ.e. ruslbréfavextir, séu lægri. Ég kannaði það meira að segja í gær og í nótt, svo virðist sem „junk bond“ vextir séu 3 prósentustigum hærri en meðalvextir góðra ríkja, 3–4 prósentustigum hærri. Þar sem vextir eru í augnablikinu komnir niður undir 0,5% eða a.m.k. undir 1% ættu vextir á svona bréfum, ruslbréfum, að vera undir 5%. (VigH: Jahá.) Við erum sem sagt að borga af Icesave hærri vexti en við mundum borga ef við lentum í því að fá lánshæfismat í ruslhópi.