138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Afar athyglisverðar upplýsingar eru að koma fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég hef aldrei efast um reiknisnilli hans enda er maðurinn með doktorsgráðu í stærðfræði og mjög vel að sér um fjármálamarkaðinn almennt. Hv. þingmaður segir okkur að „junk bond“ vextir séu lægri en Icesave-vextirnir sem samið var um í vor. Það er alveg hreint með ólíkindum hvernig komið er fram við okkur, hvernig hæstv. fjármálaráðherra hefur yfir höfuð getað lagt þennan samning fyrir þingið og hvað þessi samninganefnd var yfir höfuð að hugsa.

Svo langar mig að lokum að spyrja þingmanninn af því að hann hefur bent á reglugerð sem tók gildi í júní, reglugerð sem Evrópusambandið tók upp eftir bankahrunið á Íslandi sem skyldar aðildarríki til að hafa ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóði sínum: Telur þingmaðurinn ekki óþarft að biðja um ríkisábyrgð á Icesave-samningana þar sem ekki er hægt að (Forseti hringir.) setja lög aftur í tímann og þar sem bankahrunið varð (Forseti hringir.) síðasta haust en reglugerðin tók gildi í júní er málið fallið?