138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alla vega upplýst það þar sem ég hef komið. Ég fór bæði á alþjóðaþing þingmanna um NATO og alþjóðaþing þingmanna um málefni Tíbets, sem var reyndar ekki haldið á sama stað. Þar kom í ljós — ég ræddi við þingmenn frá Bretlandi, Hollandi, Svíþjóð og Noregi, engan frá Danmörku þó, en ég reyndi að leggja mig fram við að tala við þingmenn sem voru á þessu svæði, því að það er nú þar sem er kannski mikilvægast að upplýsa fólk um stöðu mála — um leið og ég setti þetta í samhengi kom í ljós að þeir virtust einmitt ekki hafa nægilega greinargóðar upplýsingar. Þeir gerðu sér í raun og veru ekki grein fyrir hversu mikil skuldbinding þetta væri og hvað þetta hefði mikil áhrif á grunnstoðir okkar. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því og það er ekki nægilega vel útskýrt fyrir þeim sem við erum að kljást við, Bretum og Hollendingum, að okkar einlægi vilji er að gera allt sem við getum til að tryggja það að þeir sem höfðu þessa peninga af þjóðinni verði látnir sæta ábyrgð.

Síðan ekki síst, og þetta finnst mér líka mjög mikilvægt, er fólk að líta eftir því hvar regluverkið er til að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Þar liggur trúverðugleiki okkar, þ.e. í regluverkinu, því að ef hægt er að gera svona aftur út af því að regluverkið er ekki nægilega gott, er náttúrlega harla öruggt að það gerist. Það er alltaf til fólk sem er tilbúið til að misnota og misbeita öllum mögulegum göllum í kerfinu eða glufum til að hygla sér og sínum. Ég bara skora á hæstv. ríkisstjórn að koma með þær umbreytingar sem til þarf til að þetta (Forseti hringir.) gerist ekki aftur.