138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur kærlega fyrir ræðu sína. Það er alltaf mikil skynsemi þegar hún talar, hún hefur annan vinkil en við hinir þingmenn af því að hún hefur kynnt sér svo vel aðra hlið á málefnunum í gegnum friðarhreyfingar.

Ég vil hughreysta þingmanninn vegna þeirra orða sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hreytti í hana í morgun um það að hún væri að hlaupast til Davíðs Oddssonar. Við konur á Alþingi megum vera með sterk bein, því að ég vil segja þingmanninum frá því að ég hef fengið sturtu frá stjórnarþingmanni, fékk hana í sumar akkúrat þegar við vorum að ræða Icesave-málin en þá fékk ég miklar skammir fyrir utan þessa hurð frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, það glumdi hér inn í ræðusal. En svona er sálarástandið á stjórnarliðum og þá sérstaklega þeim mönnum sem halda að þeir séu óskaplega stórir. Þannig að hún skal ekki láta bugast frekar en ég, það er okkar hlutverk á Alþingi að tala máli þjóðarinnar og rödd kvenna verður að heyrast hér eins og rödd karla.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að því þar sem það hefur verið upplýst að allt sem fer fram í ræðustóli Alþingis sé þýtt fyrir Breta og Hollendinga, hvert einasta orð, og það er kannski út af því sem ríkisstjórnin er að skýla sér á bak við það að ekki megi segja hér hvað sem er. Mig langar því til að beina spurningu til þingmannsins: Hvað heldur hún að Bretum og Hollendingum þyki um það að í þeirri ríkisstjórn sem nú starfar og er að reyna að koma efnahagslífinu af stað aftur sitji þrír fyrrverandi ráðherrar sem sátu í hrunríkisstjórninni, þ.e. hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. samgöngumálaráðherra? Hvað telur hún? Skemmir þetta ekki málið fyrir okkur?