138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Traust snýst um trúverðugleika og trúverðugleiki núverandi ríkisstjórnar er enginn þar sem í þeirri ríkisstjórn eru þrír ráðherrar úr hrunstjórninni og það voru ráðherrar sem spiluðu stóra rullu þegar allt fór á hliðina hér. Það er það sem við erum að fást við og það er jafnvel ástæðan fyrir því að við mætum svona mikilli andstöðu í Evrópu. Við erum með sama hæstv. utanríkisráðherra, hann situr ekki sæti sínu hér en hann situr þarna frammi svo það má vera lýðum ljóst að ég er ekki að baktala hann, hann hlustar á mig segja þessi orð. Hæstv. utanríkisráðherra var beinn þátttakandi í ríkisstjórninni þegar hér fór allt á hliðina. Sá sami utanríkisráðherra fer nú þegar honum hentar um Evrópu að semja um aðild Íslendinga að Evrópusambandinu. Það er ekki við góðu að búast.

Ég fór ásamt tveimur öðrum þingmönnum til Noregs um síðustu helgi. Það er nauðsynlegt að vera upplýstur af báðum hliðum, já-hliðinni við Evrópusambandinu og nei-hliðinni við Evrópusambandinu, því að Icesave-samningarnir snúast fyrst og fremst um Evrópusambandsinngöngu, það hefur margoft komið fram í ræðum hér. Ég varð undrandi á því, frú forseti, hve við mættum miklum velvilja, hlýju og hjálpsemi frá vinum okkar í Noregi. Þeir vilja allt fyrir okkur gera, þeir eru með opna arma bara ef við biðjum um það. Og þetta staðfestist hér og nú, sósíaldemókratar í Noregi eins og hér, vilja fá okkur inn í Evrópusambandið, þeir vilja líka koma Noregi þar inn. Við erum með nýja heimssýn, við viljum samvinnu við Grænlendinga, Færeyinga, Íslendinga og Norðmenn og Kanadamenn til framtíðar um hagsmuni á Norðurslóðum. Hvernig lýst þingmanninum á þessa nýju heimssýn okkar?