138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sátum hér á löngu sumarþingi og tókum þátt í atkvæðagreiðslu um hið fyrra Icesave-frumvarp. Ég minnist þess að við atkvæðaskýringar þá og í þriðju umræðu um það mál stóðu stjórnarþingmenn hér og hrósuðu vinnubrögðum Alþingis í hástert. Nú væri komin upp ný staða, mikið samstarf væri í gangi og það væri augljóst að menn hefðu lagst í mikla vinnu við að leita sátta. Það gekk svo langt að þrátt fyrir að það liggi nú fyrir að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi ætlað að samþykkja málið óséð voru þeir farnir að berja sér á brjóst og þakka sjálfum sér fyrir að hafa leitt málið í þennan farveg. Nú hins vegar kemur fram þetta nýja Icesave-frumvarp þar sem fyrirvörunum er að mínu mati kastað á glæ. Allri þeirri vinnu sem unnin var á sumarþinginu er kastað út um gluggann og væntanlega hefur þá ekki verið innstæða fyrir þessari miklu ánægju með þessi vinnubrögð sem viðhöfð voru hér í sumar.

Ef hv. þingmaður er sammála mér um að fyrirvararnir séu allir eða að mestu leyti farnir út úr málinu, nú veit ég ekki hvað hv. þingmanni finnst um það, hverja telur hv. þingmaður vera helstu ástæðuna fyrir því að stjórnarflokkarnir töldu rétt að snúa alfarið frá þeirri leið sem Alþingi valdi að fara í sumar? Hverjar eru helstu ástæðurnar fyrir því? Það er mjög mikilvægt að við fáum svar við þessari spurningu og áttum okkur á þessu atriði vegna þess, frú forseti, að við Íslendingar erum í gríðarlega erfiðum málum. Það er engu að síður hægt að rétta þjóðarskútuna við og ég hef fulla trú á því að það takist á endanum. Þó er mikilvægt að við áttum okkur á þeim sjónarmiðum sem að baki búa, sérstaklega þegar farið er á þennan hátt með gildandi nýsamþykkt lög (Forseti hringir.) Alþingis.