138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ágætis andsvar og þrátt fyrir að hv. þingmaður sé eitt spurningarmerki yfir þessum spurningum mínum er engu að síður gott fyrir okkur og hollt að reyna að finna þessum skoðanaumsnúningi stjórnarliða og þessari umturnun í skoðunum einhvern stað. Ekki er það svo að stjórnarliðar komi fram og útskýri fyrir okkur hvers vegna þeir hafi skipt um skoðun, hvers vegna þeir hafa fallið frá öllum fyrirvörunum. Þeir hafa ekki séð sér það fært og telja sér það ekki skylt. Þá er það bara þannig. Sagan mun dæma þá fyrir að hafa ekki skoðun á málinu, eða svo virðist vera.

Ég held að hv. þingmaður hafi engu að síður hitt naglann á höfuðið þarna í sínum málflutningi vegna þess að í gær kom hæstv. fjármálaráðherra í ræðustól og talaði um grímulausar hótanir ESB-landanna án þess að útskýra það neitt frekar. Ég skildi af máli hans að það væru jafnvel einhver skrifleg gögn því til stuðnings að þessar hótanir hafi komið fram. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að við skulum reyna að fá þessi gögn í hendurnar þannig að við áttum okkur á hvaðan þessi þrýstingur kom og hvenær hann kom? Var það eins og hæstv. forsætisráðherra minnir mig hafi sagt hér í morgun þegar hún var spurð út í þessi orð? Hún vildi meina að þessar hótanir hafi birst fyrir rúmu ári síðan en ég leyfi mér að skilja hæstv. fjármálaráðherra þannig að þetta séu nýleg dæmi. Nú veit ég ekki hvort hv. þm. Vigdís Hauksdóttir veit eitthvað meira um þetta mál en ég vegna þess að það er talað um það í þingsalnum af hálfu stjórnarliða að öll gögn séu uppi á borðum. Engu að síður er maður enn þá að heyra af nýjum gögnum í málinu sem hefur verið leynt fyrir okkur þingmönnum. Ég spyr því hv. þingmann: Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að við reynum að (Forseti hringir.) knýja fram þessi gögn?