138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við afgreiddum gildandi lög varðandi Icesave-samninginn var gert ráð fyrir því að fyrirvararnir sem þá voru settir yrðu kynntir viðsemjendum okkar, þ.e. Hollendingum og Bretum. Ríkisstjórnin hefur kosið að líta þannig á að þessi heimild feli í sér að Alþingi og Ísland eigi ekki að kynna þessa fyrirvara fyrir viðsemjendum heldur falla frá þessum fyrirvörum í samtölum við Hollendinga og Breta. Það er alveg ljóst að þetta frumvarp sem við ræðum nú felur ekki í sér að þessir fyrirvarar séu áréttaðir heldur er hér fyrst og fremst verið að innsigla, verði þetta að lögum, að við höfum fallið frá samþykkt Alþingis sem gerð var sl. haust. Það væri fróðlegt að sjá hvort stjórnarliðar treysti sér til þess að taka til baka ákvarðanir sem þeir sjálfir stóðu að sl. haust.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði og vakti athygli á, hæstv. forsætisráðherra tjáði sig að lokum í þessari umræðu um þessi mál og gerði það með mjög myndarlegum hætti að sumu leyti. Bæði það sem hv. þingmaður nefndi en hæstv. forsætisráðherra vék einnig sérstaklega máli sínu að hinum efnahagslegu fyrirvörum og túlkaði þá með mjög afdráttarlausum hætti. Túlkun hæstv. forsætisráðherra er svona, með leyfi virðulegs forseta:

„Með samþykkt þessarar breytingartillögu er Alþingi að lýsa því yfir að ríkisábyrgðin verði á þessu stigi ekki veitt lengur en til 15 ára.“

Þetta er mjög afdráttarlaust. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún sé þeirrar skoðunar að það sé staðið við þessa lagasetningu frá því í september. Hvort hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, sem hafa haft ábyrgð á þessu máli, hafi kynnt þessa fyrirvara fyrir viðsemjendunum eða hvort þeir hafi farið út, reist hvíta flaggið og lýst yfir fullkominni uppgjöf.