138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir hans hugleiðingar því allir undrast þessi sinnaskipti ríkisstjórnarinnar. Það er ekki nóg með að það standi í ræðu hæstv. forsætisráðherra frá í sumar sem ég vitnaði í áðan heldur stendur í lokaorðum hennar, með leyfi forseta:

„Niðurstaða Alþingis er í sínum kjarna eins og að var stefnt af hálfu ríkisstjórnarinnar.“

Hún er ekki bara að svíkja þjóð sína heldur þingið líka. Hún er raunverulega að svíkja sína stjórnarflokka með því að taka málið upp og koma heim með nýtt frumvarp sem á að kollvarpa þeim lögum sem samþykkt voru þann 28. ágúst sl. Þess vegna er alveg með ólíkindum í hvaða farvegi þetta mál er. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í þessu andsvari því ég hef talað mikið um það, bæði í sumar og nú í haust, hvað varðar stjórnarskrárbrotið sem verið er að fremja. Þetta mál er allt svo skrýtið og það er með ólíkindum að þetta hafi ekki verið forsíðufrétt í öllum dagblöðum hvern einasta dag frá því frumvarpið kom fram því það er ekki nóg með að ríkisstjórnin sé búin að lyppast niður fyrir Bretum og Hollendingum eina ferðina enn heldur virðist svo vera, miðað við það sem kom fram í umræðum um frumvarpið í sumar og kom fram í ræðum hæstv. forsætisráðherra og formanns fjárlaganefndar, að löggjafarvald okkar sé komið út til Breta og Hollendinga.

Það er alveg með ólíkindum að við þurfum að taka við þeim skipunum að lögin frá í sumar séu ekki gild. Við getum alveg eins orðað það þannig að lögin frá í sumar hafi ekki tekið gildi þrátt fyrir að forsetinn hafi undirritað þau 2. september, skömmu eftir að Alþingi samþykkti þau, því ríkisstjórnin kemur heim með nýtt frumvarp sem kollvarpar öllu sem var búið að ná samstöðu um.