138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur sagt í þessum andsvörum. Þessi efnahagslegi fyrirvari sem þingmaðurinn benti á, það var alveg skýrt í þessum fyrirvörum að þessu tímabili átti að ljúka árið 2024. Ríkisstjórnin var sammála um að standa að þessum fyrirvörum. Ég vil minna á að framsóknarmenn samþykktu að lokum ekki þessi lög og ekki heldur flokkur hv. fyrirspyrjanda þannig að ríkisstjórnin fór algjörlega fram með þetta mál. Þótt hér hafi tekist góð samvinna milli flokka í þinginu var það náttúrlega hæstv. fjárlaganefnd sem knúði þetta mál áfram og ég vísa aftur í orð hæstv. formanns fjárlaganefndar um að það stæðu allar vonir til þess að þetta yrði samþykkt með þessum hætti.

Síðan hefur komið á daginn að ríkisstjórnin hefur þurft að lúta í gras gagnvart Bretum og Hollendingum í þessu máli á ný, þar sem ekkert ákvæði er í þessu um hvenær eigi að ljúka greiðslum. Við eigum að halda áfram að greiða um ókomin ár svo lengi sem skuldin lifir. Því er búið að kollvarpa þessu öllu eins og ég hef oft komið inn á og það var líka sett öryggisatriði um að ef einhverjar eftirstöðvar yrðu af skuldunum árið 2024 ættu Bretar og Hollendingar að sækja á okkur. Uppgjöfin er því algjör. Ég minni á að í nágrannaríkjum okkar sem við berum okkur saman við hefur afsögn ráðherra orðið fyrir minna tilvik en þetta.

Það er skrýtið að standa í þessum sporum þar sem ríkisstjórnin kemur fram með hótanir eins og í dag, um að hér bresti á frostavetur mikill ef þetta Icesave-frumvarp verður ekki samþykkt, frumvarp sem skuldbindur komandi kynslóðir, kennitölur sem ekki eru einu sinni orðnar til. Það er óþolandi hvernig ríkisstjórnin fer fram í þessu máli. (Forseti hringir.) Ég er óskaplega ósátt við þetta (Forseti hringir.) frumvarp.