138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir ræðu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Í þessari ræðu, eins og öðrum ræðum sem þingmaðurinn hefur flutt hérna, þó að hún hafi farið víða varðandi efnisleg atriði málsins held ég að það sé rauði þráðurinn hjá henni að flokkarnir hér og þingmenn Alþingis taki höndum saman og reyni að finna sameiginlega leið út úr þessu og að við getum þá byggt á þeim fyrirvörum sem samþykktir voru í sumar og enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn fyrir utan einn minnir mig sem ekki var tilbúinn að samþykkja neitt.

Ég hins vegar vildi aðeins ræða það hvort þingmaðurinn telji að þetta mál falli að hinum svokölluðu Brussel-viðmiðum og hver sé ástæðan fyrir því að mati þingmannsins að samningsmennirnir töldu nauðsyn á að (Forseti hringir.) víkja frá Brussel-viðmiðunum að ákveðnu marki þannig að ensk lög gildi (Forseti hringir.) um samninginn (Forseti hringir.) en ekki þessi Brussel-viðmið.