138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur kærlega fyrir ræðu hennar. Það var mikill sáttatónn í ræðunni og það er það sem við Íslendingar þurfum fyrst og fremst á að halda núna, að við stöndum saman sem þjóð og sem þingmenn, en það er ekki í boði af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, því miður.

Þingmaðurinn fór yfir það í máli sínu hvernig ætti að ná þessari samstöðu og svo framvegis, en ég er búin að vera að lesa ræðu hæstv. forsætisráðherra í morgun frá því í sumar sem hún flutti þegar lögin voru að taka gildi og leyfi ég mér að vitna hérna í eina setningu úr því, með leyfi forseta:

„Með samþykkt þessarar breytingartillögu er Alþingi að lýsa því yfir að ríkisábyrgðin verði á þessu stigi ekki veitt lengur en til 15 ára.“

Svona er hægt að lesa sig í gegnum ræðuna. Allur málflutningur okkar í stjórnarandstöðunni núna er í þessari ræðu. Ég hvet fjölmiðlamenn til að kynna sér ræðuna.

Þá er komið að spurningunni: Hvernig telur þingmaðurinn að sé hægt að ná sáttum milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli?