138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að hún hefði miklar áhyggjur af því ef við samþykktum Icesave-samningana að við mundum ganga mjög hart að velferðarkerfinu okkar, það mundi verða það sem yrði í boði þegar fram liðu stundir. Það kemur reyndar fram í minnihlutaáliti tveggja hv. þingmanna Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd þar sem þau benda einmitt á þennan hlut, að við getum lent í fátæktargildru, og samt sem áður fengust ekki nefndarálitin í efnahags- og skattanefnd rædd í fjárlaganefnd. Það voru fjögur mjög merkileg álit sem komu frá efnahags- og skattanefnd í fjárlaganefnd. Þau fengust ekki rædd í fjárlaganefnd, heldur var málið tekið út í þjósti og í andstöðu við minni hlutann án þess að eyða svo sem einni mínútu í að ræða þessi nefndarálit, eða bara yfir höfuð að ræða það sem fram hafði komið á fundinum. Hvað finnst hv. þingmanni um svona vinnubrögð hjá hv. fjárlaganefnd?