138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að byrja á því að leiðrétta misskilning hjá hv. þingmanni, vegna þess að fulltrúi Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd skilaði áliti með okkur sjálfstæðismönnum. Hann var með á nefndaráliti okkar. (MT: Þess vegna voru þau ekki fimm.) Já, þess vegna voru þau ekki fimm. En hvað um það, þau voru fjögur og voru merkileg.

Hv. þingmaður vék að því að vegið yrði að velferðarkerfinu. Í þessum samningum kemur fram íslenska ríkið tekur að taka að sér að greiða um 40 milljarða í vexti frá 1. janúar sem okkur ber ekki lagaleg skylda til að gera og við eigum að greiða þrjá og hálfan milljarð í umsýslukostnað bara til Breta og Hollendinga fyrir að greiða út þessar kröfur sínar sem þeir tóku ákvörðun um sjálfir að gera, við komum ekkert að því. Hvað finnst hv. þingmanni um að menn skuli taka að sér að greiða einhverja 45 milljarða sem við þurfum ekki að greiða í því efnahagsástandi sem er núna? Ég minni bara á að t.d. er verið að tala um að setja einhverja þriggja milljarða sparnaðarkröfu á Landspítalann, sem er þá einn tíundi, reyndar ekki það, af þessari upphæð. Menn halda því fram að (Forseti hringir.) þessi krafa muni vega þannig að Landspítalanum að hann geti ekki starfað.