138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:12]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir andsvarið. Ég vil líka benda á að málið var afgreitt án meirihlutaálits úr efnahags- og skattanefnd þannig að meiri hlutinn er þá alla vega tæpur ef hann er fyrir hendi í þessu máli. Það mun væntanlega koma í ljós í atkvæðagreiðslu.

Ég get bara talað fyrir mig, ég stjórna ekki hér og stýri ekki minni hlutanum, en ég mun koma hér upp eins oft og mér finnst þörf á á meðan mér finnst ég hafa eitthvað til málanna að leggja. Þegar ég tala um að við þurfum að hætta þessu karpi í þessum sal og fara eitthvert annað, á ég ekki endilega við út úr húsinu, bara að fólk setjist niður eins og manneskjur og tali saman með það markmið í huga að leysa málin.