138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:14]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Icesave-samningurinn sem liggur fyrir er óbrúklegur. Hann er óboðlegur vegna þess að hann tekur íslenska þjóð kverkataki um ófyrirsjáanlegan tíma. Alþingi Íslendinga getur ekki látið bjóða íslenskri þjóð slíkan samning. Um það snýst málið, virðulegi forseti. Þetta snýst líka um grundvallaratriði, um það hvort sá samningur sem hér liggur fyrir stenst íslenska stjórnarskrá. Vísir lögvitringar og þeir reyndustu í okkar samfélagi hafa á undanförnum missirum margoft bent á þennan veikleika í því máli sem við erum að véla um á hv. Alþingi.

Fyrir skömmu var vikið að þessum þáttum í leiðara Morgunblaðsins þar sem vitnað var í grein Sigurðar Líndals prófessors, með leyfi forseta, „um að vafasamt gæti verið að Alþingi væri heimilt, að óbreyttri stjórnarskrá, að samþykkja það frumvarp, sem nú er reynt að þvinga í gegnum Alþingi, [og] hefur að vonum vakið mikla athygli“ vegna þess að þetta varðar hvert einasta mannsbarn í landinu.

Það er líka með ólíkindum hvernig ríkisstofnunin Ríkisútvarpið hefur ekki gefið mikið pláss fyrir þessa umfjöllun, en túlkað og boðið fram á hinn bóginn fyrirferðarmikla lofsöngva um Evrópusambandið. Þessir lofsöngvar eru ekki mjög hentugir til söngs því að þeir hafa gruggugar melódíur og grugguga túlkun sem er miklu fremur málflutningur en fréttaflutningur. Það er mikill ljóður á ráði Ríkisútvarpsins í þeim efnum. Það er ekki verið að upplýsa íslenska þjóð um það sem er jákvætt og það sem er neikvætt, það eru lofrullur um Evrópusambandið sem er því miður að mati okkar, margra þingmanna, ekkert til að sækjast eftir fyrir íslenska þjóð, miklu fremur að berjast gegn þó að við þurfum auðvitað að rækta garðinn og vinna með öðrum þjóðum hvar sem er á jarðarkringlunni og ekki síst með nágrannaþjóðum okkar í Evrópu þar sem við eigum hagsmuna að gæta í samningum söluafurða, viðskiptum og öðrum þáttum. En látum ekki þessar þjóðir traðka á okkur.

Í gegnum aldirnar hafa Evrópuþjóðir frá upphafi Íslandsbyggðar sóst eftir áhrifum á Íslandi. Margoft í sögunni kemur það upp að Evrópuþjóðirnar ásælast auðlindir Íslendinga. Í þjóðfélaginu í dag eru stjórnmálaöfl sem nudda sér utan í þetta lið, eru með flaður í garð þessara þjóða sem varðar ekkert um velsæld, hagsæld eða framtíð íslenskrar þjóðar. Þau flaðra upp um þetta lið eins og tíðkast á sýningum ákveðinna gæludýra í samkomusölum landsins. Þetta er ekki spennandi. Þetta er sárgrætilegt og auðvitað verður að sporna við þessum vinnubrögðum.

Ragnar H. Hall sagði fyrir skömmu í grein í Morgunblaðinu, með leyfi forseta, að hann væri „sömu skoðunar og Sigurður Líndal um það, að hagsmunir sem hér eru í húfi séu slíkir að verulegur vafi sé á því að efni Icesave-frumvarpsins sé samþýðanlegt stjórnarskránni“.

Þess vegna skoraði hann á alþingismenn að láta fara vandlega yfir það atriði áður en þetta frumvarp yrði tekið til endanlegrar afgreiðslu. Orð þessara virtu lögfræðinga vega svo þungt að fram hjá þeim verður ekki horft.

En hvað gerir Samfylkingin í þessu efni? Hún lygnir augunum eins og köttur sem fer vel um í sófanum, malar lofsöngvana um Evrópusambandið og skiptir sér ekkert af velferð íslensku þjóðarinnar í þessum efnum. Ekkert. Hún lygnir augunum og malar til Evrópu. Hvað er að þessu liði? Hvað er að þessu ágæta fólki? Hvar er íslenskt stolt? Hvar er íslensk tilfinning? Hvar er íslenskur hjartsláttur? Hann malar á meginlandi Evrópu, hjá Samfylkingunni sem hefur gefist upp, gefist endanlega upp á að verja og fylgja eftir sjálfstæðu íslensku landi, íslenskri þjóð.

Margir skilja ekki þessa afstöðu. Það eru margir Íslendingar og þeim fjölgar óðum sem skilja ekki þetta sinnuleysi, þetta áhugaleysi, þessa uppgjöf Samfylkingarinnar, því að hún er svo augljós og kemur kannski best fram í því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar taka engan málefnalegan þátt í umræðunni. Þeir detta inn í einstaka andsvar en taka engan þátt í umræðunum, verja ekki þann málstað sem þeir fylgja eftir og sitja eftir og hafa það líklega helst til ráða að skripla á skötunni, stíga sporin án þess að ígrunda þau og hugsa ekkert um afleiðingarnar. Það er eins og að stíga á skötu og þá er nánast ekki hægt annað en að maður falli í slorið. Það er ekki það versta. Það versta er að hugsa ekki til enda afleiðingarnar sem þessi samningur sem hér er verið að véla um leiðir yfir íslenska þjóð. Hann setur íslenska þjóð í skuldafangelsi. Það eru engin rök fyrir því vegna þess að það eru engin rök fyrir því að íslensk þjóð eigi að bera ábyrgð á þeim einkafyrirtækjum sem fóru fram úr öllu hófi og sköpuðu vanda í rekstri sínum.

Hæstv. ríkisstjórn Íslands hefur fyrst og fremst hugsað um að verja hagsmuni fjárfestanna sem tóku áhættu á því að lána til þessarar starfsemi íslensku bankanna, erlendu fjárfestanna og líka þeirra sem tóku lán hjá þessum bönkum, bæði heima og heiman, ekki síst að heiman. Auðvitað áttu þeir að taka ákveðna ábyrgð af þeirri áhættu sem þeir völdu sér með því að skipta við þessa banka á þessum kjörum og þessum væntingum, þessum lottóvinningum sem voru boðaðir í starfsemi bankanna.

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, hefur horft á málið frá öðru sjónarhorni, með leyfi forseta:

„Hann furðar sig á að ekki skuli hafa verið kannað til þrautar hvort nokkur lagaskylda hvíli á Íslendingum til greiðslu annarra manna skuldbindinga. Hann vitnar til landhelgisbaráttunnar og segir að með Icesave-samningunum sé ávinningnum af þeirri baráttu nánast kastað á glæ. Hann bætir við: „Að segja að aðild að EES og möguleg aðild að Evrópusambandinu sé í hættu, að hugsanlega fengjum við ekki lán frá AGS, eru hreinir smámunir í samanburði við Icesave.““

Af hverju, virðulegi forseti, loka stjórnarsinnar augunum fyrir þessum staðreyndum, þessum ábendingum vísustu manna sem eru ekki í pólitík en horfa faglega á stöðu Íslands í þessu máli? Þetta er skelfileg niðurstaða og vitna má til fleiri mætra lögspekinga, svo sem Lárusar L. Blöndals og Stefáns Más Stefánssonar prófessors.

Þetta eru hlutir sem íslenskir alþingismenn geta ekki lokað augunum fyrir. Þeir geta ekki lokað augunum fyrir þessum ábendingum og það verður til ævarandi skammar fyrir þá og íslenska þjóð ef þeir láta slíkt yfir sig ganga án þess að vita um hvað málið snýst. Það er nefnilega svo að menn vita ekki enn þá hvað er rétt í þessu máli í heild sinni. Enginn veit nákvæmlega hvað er rétt og þess vegna verður að taka sér tíma til að finna það út og komast að niðurstöðu.

Bretar og Hollendingar hafa ekki viljað ganga dómstólaleiðina. Þeir hafa ekki lagt fram skynsamleg rök fyrir því að Íslendingar ættu að greiða þær upphæðir sem um er að ræða. Af hverju er það? Það þarf ekki mikla reynslu eða djúpt brjóstvit til að skynja það. Þeir vilja ekki ganga þessa leið vegna þess að þeir vita að þeir hafa ónýtt mjöl í sekknum. Þeir hafa veikan málstað að verja. Þeir vita að þeir eru valdníðingar gagnvart lítilli þjóð og þess vegna vilja þeir ekki þessa umræðu. Svo eru til, virðulegi forseti, þingmenn á Alþingi Íslendinga sem loka augunum fyrir þessu, gjörsamlega loka augunum, setja hauspoka yfir hausinn og lifa í einhverjum draumaheimi. Þetta kemur í engu við flokkspólitík á Íslandi. Þetta varðar íslenska þjóð. Þeir sem gera þetta mál að flokkspólitísku máli eru ekki á háu plani.

Samningurinn stílar upp á að gera Ísland í rauninni að efnahagslegri nýlendu tveggja gamalgróinna nýlenduþjóða, Breta og Hollendinga. Ætlum við að láta bjóða okkur það? Er forsvaranlegt, virðulegi forseti, að stjórnarsinnar þegi þunnu hljóði yfir rökum í þessu máli? Kannski er það eðlilegt af því að auðvitað hafa þeir ekki rökin. Þeir hafa hlýðnina við boðskapinn hjá herrunum sem stjórna þeim tömdu. Þeir lúta ábendingum til að mynda ráðgjafa fjármálaráðherra, aðstoðarmanns fjármálaráðherra, sem hefur reyndar alla tíð verið frægur fyrir einstaka, sérstaka og sjálfsmótaða hagfræði sem enginn hefur skilið. Það er gallinn í því þegar menn skilja ekki hlutina.

Auðvitað voru það frummistök þegar yfir okkur dundi að menn stóðu ekki saman eins og menn standa saman þegar áföll verða, slys verða, hamfarir verða. Þá eiga menn að standa saman, þá eiga menn að ýta til hliðar öllum hégómanum og standa saman um að ná niðurstöðu sem skilar árangri. Auðvitað átti að taka menn úr öllum flokkum og alþjóðlega samningamenn, harðsvíraða samningamenn sem þekkja inn á leikreglur á þessum vettvangi um allan heim inn í þessa vinnu. Nei, það var ekki gert, virðulegi forseti, það var bara verið að gutla í baktjöldum í hliðarherbergjum fjármálaráðuneytisins og forsætisráðuneytisins og öllum pakkanum ýtt yfir á hæstv. fjármálaráðherra, hann látinn í skítverkin og samfylkingarmenn hafa væntanlega verið í rauðvínspartíi á meðan. Þetta er metnaðurinn fyrir íslenska þjóð. Þetta er baráttugleðin sem ætlað er að skila okkur árangri inn í framtíðina og verja það að Ísland verði lengur sjálfstæð þjóð en þessi 65 ár sem nú eru liðin frá stofnun lýðveldisins.

Við eigum auðvitað að hefja samningaviðræður á ný. Við eigum að taka viðræður beint við Evrópusambandið um þá valdbeitingu sem verið er að beita okkur. Við höfum rétt til þess sem aðilar að EES. Við eigum líka að láta heyra í okkur með samtakamætti og gagnrýna Norðurlöndin fyrir þá lágkúrulegu aðferð sem þau völdu til að blanda sér inn í þessa þætti. Meira að segja Norðmenn, okkar „kære brödre og venner“, vísuðu málinu í hendur Svíum til þess að láta Svía sjá um málin fyrir hönd Norðurlandaþjóðanna. Til hvers höfum við verið á fundum með þessu fólki áratugum saman í nefndum, í þingum þjóðanna — og svo þegar á reynir koma þessar þjóðir fram við okkur eins og druslur? Eigum við að láta bjóða okkur það? Eigum við að taka því þegjandi og hljóðalaust? Við eigum ekki að gera það. Okkar hlutverk er að verja Ísland og ef það er beint markmið ákveðinna flokka á Íslandi að leggja Ísland niður eiga þeir að segja það. Þeir eiga að hafa þrek til að segja það og standa við það en ekki laumast í skjóli til að mynda Vinstri grænna í hæstv. ríkisstjórn til þess að troða okkur út úr íslensku samfélagi og inn í bögglauppboð Evrópusambandsins.

Þetta er ekki lengur orðaleikur, þetta eru staðreyndir og alvara. Við eigum að kæra Breta og Hollendinga fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, kæra þá fyrir þá íhlutun sem þeir framkvæma með því að seilast til áhrifa í litlu íslensku samfélagi og hóta sjálfstæði þess. Það eigum við að gera, virðulegi forseti. (Forseti hringir.)