138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:36]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sem hafa unnið lengi í stjórnmálum sjá mjög fljótlega hvernig kaupin gerast á eyrinni. Það er engin spurning að út og suður, í bak og fyrir, hefur Evrópusambandið og Evrópusambandsríkin rottað sig saman til þess að hóta Íslendingum. Rottað sig saman í öllum þáttum hins svokallaða lobbýisma og tenginga við stofnanir víða um heim, til að mynda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er einfaldlega fyrirtæki, bisnissfyrirtæki, sem Bretar og Hollendingar eiga báðir hlutafé í … (VigH: Til þess að knésetja þjóðir.) til þess að knésetja þjóðir. Það er rétt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir setur hér fram, til þess að knésetja þjóðir. Til þess að krækja í auðlindir og verðmæti þjóða. (Gripið fram í: Rétt.)

Þingmenn á Alþingi Íslendinga loka svo augunum fyrir því að við erum um þessar mundir í hörðustu sjálfstæðisbaráttu í sögu Íslands. Við erum í hörðustu sjálfstæðisbaráttu í sögu Íslands, virðulegi forseti, og það er vægt til orða tekið. Nú sópast að okkur púkarnir úr aladdínflöskunum um alla Evrópu og vilja ná yfirráðunum sem þeir hafa verið að hugsa um öldum saman varðandi Ísland.

Íslendingar hafa staðið (Forseti hringir.) aulalega að mörgum þáttum í (Forseti hringir.) kynningu og sókn og vörn, (Forseti hringir.) en við komum kannski að því síðar.