138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:43]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Norðurlöndin hafa komið til umræðu og þess vegna er eðlilegt að tengja þessa umræðu þeim. Það er engin spurning að margir Norðurlandabúar vilja styðja við bakið á Íslendingum, alveg eins og Íslendingar hafa viljað standa við bakið á þeim. Þann rann þurfum við að rækta og gera það meira en gert hefur verið. Ekki hefur náðst árangur í því í gegnum Norðurlandaráð. Það er bara svo einfalt.

Árangur hefur hins vegar náðst í gegnum Vestnorræna ráðið með samstarfi Færeyinga, Íslendinga og Grænlendinga. Þar eigum við líka að teygja okkur í samskipti við Noreg, Kanadamenn og aðrar þjóðir sem láta sig norðursvæðið skipta á sama hátt og við eigum í náinni framtíð líka að teygja okkur til Orkneyja, Hjaltlandseyja og þeirra svæða sem við höfum ekki sýnt neina ræktarsemi. Við skulum hins vegar gæta þess að halda Vestnorræna sambandinu í því formi sem það er í í dag, ekki að hleypa stærri þjóðum inn í það, að það verði þessar þrjár þjóðir sem hafi stýringu á því og vald yfir því hvernig þar er unnið.

Við verðum að nota öll færi til þess að styrkja stöðu okkar. Allt norðursvæðið sem tilheyrir Grænlandi, Íslandi, Noregi, Rússlandi á í vök að verjast. Það þarf að styrkja það af heilum hug og fylgja því eftir með málefnalegum rökum og festu og fyrst og fremst þori til þess að standa (Forseti hringir.) á skoðunum sínum.