138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Johnsen rakti í ræðu sinni eitt og annað sem þjóðin hefur tekist á við og hún hefur iðulega barist af fullri hörku fyrir rétti sínum og náð sínu fram, nema núna. Í sögulegu samhengi er munurinn svo hrópandi. Maður getur þess vegna ekki annað en velt fyrir sér hvers vegna er þetta svona breytt núna. Það er að sjálfsögðu augljóst eins og hv. þingmaður hefur bent á að ef svona hefði verið haldið á málum til að mynda í þorskastríðinu, hefði ávinningurinn orðið lítill þrátt fyrir að þar væru jafnvel enn meira undir og hætturnar enn meiri. En hver er ástæðan? Getur það verið afleiðing þess að hér hafi orðið slys, stjórnmálalegt slys, í fyrsta skipti í stjórnmálasögunni, ólíkt öllum þessum fyrri tilvikum, er hér stjórn Samfylkingar, krata og sósíalista? Í fyrsta skipti í Íslandssögunni er slík stjórn við völd. Getur það haft eitthvað að gera með breytinguna á því hvernig tekist er á við vandann?