138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:54]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stefnur þeirra flokka sem nú ráða ríkisstjórn Íslands byggjast allar á erlendum hugmyndum, erlendum grunni, erlendum hugsjónum og hafa að sumu leyti verið staðfærðar til Íslands, en ekki nema að hluta til. Grunnurinn er útlensk kæfa og nú vilja menn komast í kæfubelginn í Brussel á ný og lifa góðu lífi og narta úr pokanum. Baráttuandinn hjá þeim stjórnmálaflokkum sem ráða ríkjum í stjórn Íslands er búinn. Hann er horfinn út í veður og vind og svo er þetta gamla sjónarmið að Ísland eigi ekki að vera sjálfstætt. Það eigi að vera partur af einhverri moðsuðu í Evrópu.

Ég man eftir orðum fyrrverandi ráðherra, Jóns Sigurðssonar, ráðherra Alþýðuflokksins á sínum tíma, um merkingarnar á bílum, sem var R fyrir Reykjavík, A á Akureyri o.s.frv. Hann vildi það ekki, hann sagði: Við eigum bara að hverfa inn í Evrópu, (Forseti hringir.) nota náttúrulaust númerakerfi.