138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er rétt, lífeyrissjóðakerfi okkar Íslendinga vegur að nokkru leyti upp þær miklu skuldir sem við erum með í útlöndum, lífeyrissjóðakerfið núna nemur sjálfsagt um 1.800 milljörðum og er það gott. Það er jafnframt hárrétt athugað hjá hv. þingmanni að svokallaðar innri skuldir Íslendinga, eða það sem er kallað „implicit debts“ eru litlar í samanburði við aðrar þjóðir, þ.e. við höfum fjármagnað lífeyrissjóðakerfi meðan flestar aðrar þjóðir Evrópu hafa byggt á svokölluðu gegnumstreymiskerfi þar sem sá sem er á vinnumarkaði borgar fyrir þann sem er á eftirlaunum. Og vegna þess að aldurssamsetning þjóða er að breytast fækkar þeim sem borga inn í hlutfalli við þá sem fá borgað út úr kerfunum. Þar af leiðandi eru kerfin ekki lengur sjálfbær eða eru í það minnsta orðin gríðarlega dýr eins og t.d. kerfið á Ítalíu, það fara í kringum 35% af launareikningi Ítalíu í að borga eftirlaun.

Hvort lífeyrissjóðakerfið er í hættu vegna þessa skal ég kannski ekki tjá mig um en það hvarflar óneitanlega að manni að þegar þjóðir eru komnar algjörlega upp að vegg með skuldastöðu sína séu allar eignir í hættu og þar á meðal lífeyrissjóðakerfi. En ég ætla ekki svo sem að vera með neitt svartagallsraus um það en óneitanlega skapar þetta hættu sem ekki má líta fram hjá.