138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í sem hann hefur rætt í nokkrum ræðum. Það er áhugavert að hlusta á hv. þingmann vegna þess að alltaf er eitthvað nýtt að koma fram. Nú er það ljóst að við borgum um 100 millj. kr. í vexti af þessum Icesave-samningum verði þeir að veruleika. Það er auðvelt fyrir hvern sem er að reikna það út að á 10 dögum er það milljarður o.s.frv.

Það sem ég er að velta fyrir mér, hv. þingmaður, er það hve mikilla tekna við þurfum að afla til að borga 100 millj. kr. á dag. Nú virðumst við ætla að taka lán í erlendri mynt og borga í erlendri mynt líka. Það þýðir væntanlega að við þurfum að afla gjaldeyris til að greiða af þessum lánum. Hv. þingmaður fór yfir viðskiptajöfnuðinn og þær vangaveltur sem þar eru að baki. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann geti bent á það hvar mesti feillinn í forsendum þeirra sem tala um þennan mikla viðskiptajöfnuð er. Ef við horfum á sögulegt samhengi — það er búið að draga upp ágæta mynd af því og dreifa til þingmanna — sjáum við að ekki er nokkurt einasta samhengi við sögu landsins, sögu viðskiptajöfnuðar og sögu inn- og útflutnings, þessi gríðarlegi viðskiptajöfnuður sem hér á að verða. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvar helsti feillinn sé í þessum útreikningum.