138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í ræðu hér í nótt fór ég yfir vangaveltur um stjórnarskrárhluta frumvarpsins sem nú liggur fyrir Alþingi og ætla ég að halda því áfram í þessari ræðu minni. Ég náði ekki að klára þá yfirferð.

Ég vil þó í upphafi benda á að stjórnarandstaðan hefur ítrekað haldið á lofti þeirri skoðun sinni og því boði að dagskrá þingsins sé hliðrað til þannig að önnur brýn mál komist á dagskrá, svo sem skattamál og annað sem þarf nauðsynlega að komast til nefnda. Við höfum ítrekað bent á að hægt er að hliðra til dagskrá þannig að þessi mál komist í þann farveg sem þau þurfa að komast í án þess þó að krefjast þess að umræðu um Icesave-málið verði lokið eða því verði ýtt eitthvað langt aftur eða fram í tímann. Þetta boð stendur og það er því algerlega á valdi ríkisstjórnarflokkanna hvort þessi mál komast til nefndar sem þangað þurfa að komast.

Ég vil líka, frú forseti, nefna að nú er kominn, að ég held, 3. desember, þetta rennur aðeins saman hjá mér. En 30. nóvember átti að verða enn einn dómsdagurinn út af þessu Icesave-máli þar sem menn töldu að Bretar og Hollendingar mundu gjaldfella á Tryggingarsjóð innstæðueigenda þær skuldbindingar sem þar eru. Fréttir berast hins vegar um það, m.a. frá Hollandi, að þetta verði ekki gjaldfellt, enda er það í engu samræmi við hagsmuni Breta og Hollendinga. Við megum ekki gleyma því að þessar þjóðir Evrópusambandsins, sem njóta þess að kúga íslenska þjóð til að greiða eitthvað sem vafi leikur á að henni beri að greiða, ganga vitanlega ekki of langt að sinni vegna þess að þeir vilja fá þessa aura. Þessar þjóðir vilja fá aurana okkar og þar við situr. Enn er því tækifæri til að gera frumvarpið og samninginn þannig úr garði að við ráðum við hann í framtíðinni.

Ég ætla að bæta því við, sem er mjög mikilvægt, að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur, þrátt fyrir orð fjármálaráðherra í gær, upplýst að engin tengsl séu milli ákvörðunar sjóðsins og lána frá þeim. Það þarf hins vegar að skýra það hvort framkvæmdastjórinn eða fjármálaráðherra eru á villigötum í umræðunni. Í þingskjölum norska stórþingsins er það líka bókað og skráð, eftir umræðu sem varð þar fyrir nokkru, að norska lánið til Íslands er tilbúið til greiðslu. Enda hefur seðlabankastjóri, frú forseti, rætt það að nú fljótlega verði hugsanlega dregið á það lán. Flýtirinn í þessu máli er óskiljanlegur, ég verð að orða það þannig. Hann er í raun óskiljanlegur vegna þess að þau atriði sem í allt sumar hefur verið talið nauðsynleg að klára standast ekki. Hvert vígið á fætur öðru hefur fallið, hver grýlan á fætur annarri hefur verið vegin ef þannig má orða það og ekki er ljóst hvað það er sem keyrir þetta mál áfram í dag.

Að stjórnarskránni og þeirri ræðu sem ég komst ekki í að klára í gær. Ég var að fjalla um grein sem þrír af okkar virtustu lögmönnum rituðu í Morgunblaðið en það eru þeir Lárus L. Blöndal, Sigurður Líndal og Stefán Már Stefánsson. Þetta er mjög athyglisverð grein, frú forseti, því hún er að mínu viti nokkuð afgerandi. Ég var búinn að fara í gegnum um það bil helming af þeim vangaveltum sem varða stjórnarskrána og er staddur í millifyrirsögn sem heitir „Íslenska ríkið ábyrgt“. Þar eru þeir félagar að velta því fyrir sér hvað gerist ef neyðarlögunum verður hnekkt varðandi ábyrgð ríkisins. Hér segir, með leyfi forseta:

„Verði lagabreytingarnar sem áttu að varða innstæðurnar felldar úr gildi“ — þá er verið að vitna í neyðarlögin — „er ljóst að eignir vantar inn í gömlu bankana sem leiðir til þess að almennir kröfuhafar verða fyrir verulegu tjóni. Á því tjóni bæri þá íslenska ríkið ábyrgð.“

Nú vitum við að fjölmargir aðilar munu láta reyna á neyðarlögin. Hvað sem okkur finnst um þetta Icesave-samkomulag, og hvort íslenska ríkinu beri skylda til að greiða þetta eða ekki, veltir maður því fyrir sér hvers vegna ríkisstjórnin og meiri hlutinn velji ekki þá skynsamlegu leið að bíða og sjá hvort neyðarlögin halda áður en þetta verður samþykkt. Það væri að bæta gráu ofan á svart ef neyðarlögin héldu ekki og íslenska ríkið þyrfti að greiða gríðarháar skaðabætur vegna þeirra laga.

Frú forseti. Önnur millifyrirsögn heitir „Afleiðingarnar“. Þar er m.a. verið að velta því upp hvaða afleiðingar gætu orðið af þeirri skuldsetningu sem hér er, neyðarlánum og öðru slíku. Í greininni stendur, með leyfi forseta:

„Í ljósi umræðu síðustu mánaða um greiðslustöðu og greiðslugetu Íslands virðist óumdeilanlegt að við þessar aðstæður væru Icesave-samningarnir til viðbótar öðrum skuldum meiri en þjóðin gæti staðið fjárhagslega undir.“

Margir þingmenn hafa bent á, m.a. vegna hinna efnahagslegu fyrirvara og ýmissa annarra þátta, að í besta falli leikur mikill vafi á því hvort við getum staðið undir þessu, í versta falli er ljóst að við getum það ekki. Auðvitað vona allir að efnahagslíf okkar blómstri og gangi vel en eins og kom fram í andsvari mínu við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson getum við vitanlega aldrei notað sömu krónurnar tvisvar.

Undir millifyrirsögninni „Stjórnarskráin“ stendur, með leyfi forseta:

„Í 40. gr. stjórnarskrárinnar er m.a. svo mælt að ekki megi taka lán er skuldbindi ríkið nema með lagaheimild“ — á þessu leikur að sjálfsögðu enginn vafi og slíkt nær að sjálfsögðu til ríkisábyrgðar. Síðan segir: „Með þessu er verið að tryggja forræði Alþingis og þá óbeint þjóðarinnar á því hverjar kvaðir íslenska ríkið megi gangast undir.“ — Því er síðan velt aðeins upp hvað lagaheimild þýði í þessu samhengi, en svo segir: „Um það virðist vera samstaða að ein meginkrafa sem gera verði til reglu svo hún geti talist lagaregla sé að hún sé skýr og afdráttarlaus þannig að hún taki á því álitaefni sem henni er ætlað.“ — Þeir eru að velta upp túlkunum sem varða stjórnarskrá og þær greinar sem þar eru og eins varðandi það frumvarp sem hér liggur frammi.

Undir millifyrirsögninni „Óviss skuldbinding“ segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt því sem rakið er hér að framan er með lagafrumvarpi því sem breyta á, lögum nr. 96/2009, gert ráð fyrir að ábyrgðarskuldbinding ríkisins sé ótímabundin og önnur ákvæði þannig úr garði gerð að í raun virðist enginn vita með vissu hvaða skuldbindingar verið sé að gangast undir ef frumvarpið verður samþykkt.“ — Þetta er lykilsetning því að á það höfum við bent aftur og aftur, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að ekki liggur ljóst fyrir hver endanleg skuldbinding íslenska ríkisins getur orðið vegna þess að lánið er í raun óendanlegt.

Frú forseti. Tími minn er á þrotum en ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá, ég þarf að klára a.m.k. þessa grein.