138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það áðan í fyrra andsvari að einn mesti munurinn á þeim samningi eða því frumvarpi sem nú er til umfjöllunar og því sem samþykkt var í ágúst er sá að búið er að skrifa inn í lagatexta m.a. þá fyrirvara sem voru og breyta þeim í lagatextanum. Einnig eru Brussel-viðmiðin svokölluðu komin þarna inn og ef ég skil og túlka bréf Gordons Browns til hæstv. forsætisráðherra þá verður ekkert svigrúm frekar en í öðru að semja um eða túlka þessi viðmið. Þetta er komið inn og það verður túlkað eins og það stendur í samningnum. Og auðvitað átti fjárlaganefnd að fá fyrrverandi utanríkisráðherra á sinn fund til að skýra það sem hún hafði fram að færa og fara yfir sögu málsins.