138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því að hagfræði væri langt því frá nákvæm grein og það kom berlega í ljós að hagfræðingar eru langt því frá nákvæmir menn þannig að ég bið hv. þingmann afsökunar á því að hafa sakað hann um að vera í fjárlaganefnd. Það er eitt sem verður mér stöðugt meira hugleikið, hér bera þingmenn hver annan sökum og segja að mál sem verið er að fjalla um geti jaðrað við stjórnarskrárbrot, samrýmist ekki stjórnarskrá og annað slíkt. Mér sýnist að nokkru leyti að Alþingi sé í ógöngum með þetta og hef hugsað um hvort hægt sé að koma upp einhvers konar apparati eða aðferðafræði til að fá úr þessu skorið án þess að vera stöðugt með þessi brigslyrði um stjórnarskrárbrot. Hvað vill hv. þingmaður (Forseti hringir.) segja um þá hugmynd?