138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:48]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans miklu elju við að ræða þetta skemmtilega mál á Alþingi eins og hann hefur gert í tugum skipta undanfarna daga þó að ég ætli líka að kvarta yfir því að ekki hafi margt nýtt komið fram í máli hans frekar en annarra að mínu viti. (VigH: Þú hefur ekki heyrt allar ræðurnar.) Það er a.m.k. ekkert haldfast í því, ekkert nýtt að mínu mati.

Hins vegar er tvennt sem mig langar að vekja athygli á og spyrja þingmanninn út í í fyrra andsvari mínu, í fyrsta lagi sagði hann í ræðu fyrir nokkrum dögum að Bretar og Hollendingar væru Íslendingum óvinveittar þjóðir. Það eru örfáir dagar síðan hann sagði það. Ég hélt að mér hefði misheyrst til að byrja með því að ég átti ekki von á að þessi annars sómakæri og hv. og ágæti þingmaður liti þannig á aðrar þjóðir, jafnvel þó að við ættum í deilum við þær, að þær voru óvinir Íslands og okkur óvinveittar. Í einhver skipti síðan hefur hann fetað svipaða braut og núna síðast í ræðu sinni áðan þar sem hann sagði að þessar þjóðir nytu þess að kúga Íslendinga. Hann segir að Hollendingar og Bretar njóti þess að kúga Íslendinga. Kannski er þetta ekki stórt atriði í þessu máli en eitt af þeim sem kannski stendur upp úr ræðum hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar.

Annað atriði sem ég ætla að nota þetta fyrra andsvar til að spyrja hann út í er að ég vil fá að heyra hvort hann líti þannig á að Bretar og Hollendingar séu óvinaríki Íslands, Íslendingum óvinveittar þjóðir sem njóti þess að kúga þessa þjóð. Er það hans afdráttarlausa skoðun? Mér finnst það skipta talsverðu máli og hafa talsverða vigt í þessum sal. (Gripið fram í.)