138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fjallaði í ræðu sinni um efnahagslegu fyrirvarana vegna þess að nú er búið að stinga gat á þá, ég er algerlega sammála því. Hv. þingmaður kom reyndar inn á þetta stjórnarskrárbrot, hvort það væri hugsanlegt, eins og þrír lögmenn hafa gefið hv. fjárlaganefnd skriflegt álit um. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að það hefði verið æskilegra ef allir sem mættu til hv. fjárlaganefndar og lýstu skoðun sinni á þessu máli hefðu komið með skriflega skýrslu um það þannig að aðrir en þeir sem hlustuðu á þessa lögfræðinga í fjárlaganefnd hefðu getað lagt mat á það út frá því. Það hefðu verið eðlilegri vinnubrögð.

Einn reyndasti samningamaður heims, Lee Buchheit, kom á fundi fjárlaganefndar í sumar. Hann er búinn að semja í áratugi, hann hefur áratugareynslu af því og er mjög virtur samningamaður. Hann ráðlagði okkur annaðhvort að setja þessa efnahagslegu fyrirvara í samninginn eins og við smíðuðum þá, ellegar að lýsa því yfir við Breta og Hollendinga að við mundum axla þá ábyrgð sem okkur bæri samkvæmt lögum, en ekki ganga frá samningum á greiðslunni eða þessum skuldbindingum fyrr en við vissum nákvæmlega hvað þær væru miklar, hvað þær væru háar, þannig að við gætum gert einhver eðlileg plön um að standa undir öllum þessum ógurlegu skuldbindingum. Það er alveg klárt að ef menn lenda í einhverjum ógöngum, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, stendur íslensk þjóð ekki undir þeim skuldbindingum sem verið er að leggja á okkur. Hver er skoðun hv. þingmanns á því að við nýttum okkur ekki betur ráðleggingar þessa virta samningamanns?