138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur kærlega fyrir andsvarið. Miðað við þau gögn sem ég hef séð frá Seðlabankanum finnst mér mjög einkennilegt hvað hann getur verið bjartsýnn varðandi vissa hluti og svo ofboðslega svartsýnn varðandi aðra hluti. Sú skoðun virðist að mjög miklu leyti endurspeglast varðandi afstöðu núverandi stjórnvalda.

Ég vil benda á, og það er eins og ég talaði um í ræðu minni, þó að ég hefði gjarnan viljað komast lengra áleiðis í henni, fyrirvarana sem samþykktir voru á Alþingi í sumar. Þó að samningurinn sé hörmulegur að mínu mati þá gerðu þeir fyrirvarar samninginn aðeins bærilegri fyrir íslenskt þjóðarbú. Nú eru uppi á borðinu upplýsingar, þó hæstv. fjármálaráðherra vildi ekki kannast við það í dag, þess efnis að skuldastaða íslenska þjóðarbúsins sé jafnvel enn verri en við töldum vera. Það skiptir geysilega miklu máli líka varðandi lánshæfismat okkar að við getum staðið undir þeim skuldum sem við erum að taka á okkur. Ég tel ekkert sem hefur komið fram frá Seðlabanka Íslands staðfesta það að við getum staðið undir þessum skuldum. Þeir hafa ekki getað útskýrt hvar við eigum að fá peningana, erlenda gjaldeyrinn, til að greiða þessar skuldir. Þá munum við geta haft áhyggjur af því, ekki varðandi lánshæfið heldur almennt varðandi það hvernig mun ganga á Íslandi.

Ég vil líka benda á að í fréttatilkynningu sem kom frá Moody´s, eftir að fyrirvararnir voru samþykktir í sumar, er talað um að fyrirvararnir séu jákvæðir fyrir lánshæfismat Íslands. Þeir benda svo á aðra þætti sem þeir hafa miklar áhyggjur af, m.a. stöðugleika íslensku krónunnar.