138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hefði verið aðeins meira í þingsal og hlustað á ræður mínar hefði hún væntanlega tekið eftir því að ég hef ekki sérstaklega mikið verið að ræða stjórnarskrána. (ÓÞ: Þú hefur ekki verið hér þegar ég hef verið hér.) Það kom fram í andsvari hv. þingmanns að mér hefði orðið tíðrætt um stjórnarskrána en ég hef meira verið að einbeita mér að forsögunni og raunar ástæðunni fyrir því að við stöndum frammi fyrir þessu. (Gripið fram í.) Hins vegar vil ég að það sé algerlega á hreinu, frú forseti, ef ég gæti fengið að svara spurningu hv. þingmanns, að ég er hér sem fulltrúi þeirra sem kusu mig. Ég tala náttúrlega fyrir mína kjósendur og það er það sem ég tel að sé mjög skýrt í þeim eiði sem við undirrituðum að við komum inn sem sjálfstæðir einstaklingar. Við lofum því að virða stjórnarskrána sem einstaklingar, ekki fyrir hönd Samfylkingarinnar. Ég veit ekki til þess að þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, hafi skrifað undir eiðinn fyrir hönd hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þannig að ég, og væntanlega flokksmenn mínir, tala fyrir hönd kjósenda okkar sem eru um 15% af kosningabærum einstaklingum á Íslandi.