138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir ummæli þingmannsins um skuldsetninguna. Það er hreint út sagt með ólíkindum að þetta skuli vera einn helsti punktur stjórnarliða í umræðunni. Ég er sammála því líka að það er fáheyrt að þeir komi í ræðustól. Ég var t.d. í útvarpsviðtali með einum stjórnarliða í gær sem fannst vera alveg nóg komið af þessari umræðu. Hann var reyndar með alls konar samsæriskenningar um að við værum bara að þessu til að sprengja ríkisstjórnina sem ég tel náttúrlega af og frá. En ég gat bent þeim stjórnarliða á að ég saknaði þess enn að heyra ummæli hans um málið. Þingmaðurinn sem taldi nóg komið hafði aldrei tjáð sig um málið, hvorki í sumar né núna. Þannig er það, en þetta var útúrdúr.

Varðandi lánshæfismatsfyrirtækin þá er það alveg rétt að þau gerðu hrikaleg mistök í aðdraganda hrunsins og urðu einmitt til þess að ýta undir þá bólu sem hér varð. Gölluð tilskipun Evrópusambandsins og margt fleira sem varð til þess að við erum í þessum vanda og þetta hrun varð segir mér það að við Íslendingar, íslenskir skattgreiðendur eigum ekki ein að bera ábyrgð á þessu hruni. Það er bara þannig. Margir samverkandi þættir urðu til þess að svona illa fór og þess vegna hljótum við að ætlast til þess af íslenskum stjórnvöldum að þau gangi þannig frá málum að tryggt sé að við vitum það, íslensk þjóð viti það að þau hafi barist fyrir hagsmunum okkar alla leið. Ég held að það sé fjarri lagi, því miður. Það hefur verið erfitt að fá upplýsingar um þetta og við erum enn að kalla eftir upplýsingum. Ég segi fyrir mig að ein ástæðan fyrir því að halda þessari umræðu áfram er sú að við getum þá kannski fengið svör við þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt hér fram ítrekað.