138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með þingmanninum að það er mjög brýnt að við höldum umræðunni áfram og fáum afstöðu stjórnarmeirihlutans til einstakra mála vegna þess að svo sjaldan sem þau opna munninn kemur í ljós að þau misskilja málið gersamlega.

Út á hvað gengur málflutningur þeirra núna? Ekki efnislega um það að við séum að skuldbinda komandi kynslóðir og börnin okkar, þeir garga hér úr ræðustól: Málþóf, málþóf. Við erum ekki einu sinni búin að tala jafnmikið um Icesave-málið og Samfylkingin og Vinstri grænir töluðu um Ríkisútvarpið þegar því var breytt í ohf. Ef við berum þau mál saman hlýtur þetta mál að vera töluvert mikilvægara og þeir meira að segja gætu breytt þeirri löggjöf núna en það hefur ekkert heyrst um að breyta eigi Ríkisútvarpinu ohf. aftur í ríkisstofnun. Þetta tel ég mjög alvarlegt. Ég tel að það halli mjög alvarlega á lýðræðislega umræðu og ég tel líka að það halli mjög á þann fréttaflutning sem komið hefur sérstaklega úr herbúðum Stöðvar 2, sem hefur ekki fjallað efnislega um málið og þær röksemdir sem stjórnarandstaðan hefur talað ítrekað um í marga daga. Það er ekki eðlilegt, frú forseti, að svo sé og því vil ég beina þeirri spurningu til hv. þingmanns: Telur hún ekki mikilvægt að fram fari lýðræðisleg umræða í sölum Alþingis og þeirri lýðræðislegu umræðu sé varpað út í samfélagið (Forseti hringir.) á heiðarlegan og hlutlausan hátt.