138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið og treysti því að hann svari seinni spurningu minni í síðara andsvari sínu, segi okkur hvað hann búist við að hæstv. forseti Íslands geri við þetta mál.

Ég tek undir með þingmanninum og það er fróðlegt að heyra þar sem hann á sæti í fjárlaganefnd hvernig þessi umræða hefur farið fram í nefndinni. Þetta er mál sem er miklu stærra en svo að það eigi að láta eina nefnd þingsins um að klára það. Þetta er mál sem snertir okkur öll, börnin okkar og barnabörn og jafnvel lengra fram í tímann. Ég sem á ekki sæti í fjárlaganefnd tel algjörlega nauðsynlegt að sitja hér og hlusta á það sem fram kemur og taka þátt í umræðunum til að geta betur glöggvað mig á því hvað um er að vera.

Ég hef spurt ítrekað í þessum sal út í samskipti við viðsemjendur okkar, bæði fyrir og eftir að lögin voru samþykkt, og ég veit að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd spurðu ítrekað þessara sömu spurninga. Ég hef enn ekki fengið nein svör nema einhverjar hálfkveðnar vísur í pirringslegum svörum hæstv. fjármálaráðherra.

Ég tek undir með þingmanninum, málþófið er ekki hafið en það getur vel verið að til þess muni koma. Enn erum við að ræða þetta mjög efnislega og ég bíð eftir því að fá svör við þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt fram. Það er ekki nóg að fá þau svör eftir að umræðu og afgreiðslu málsins er lokið, þess vegna eru það ein rökin í viðbót.

En ég endurtek sem sagt spurningu mína til hv. þingmanns um hvað hann haldi að muni ráða afstöðu hæstv. forseta Íslands í þessu máli.