138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti því að forseti Íslands sé samkvæmur sjálfum sér. Ég treysti því að hann meðhöndli þetta mál á sama hátt og hann meðhöndlaði fjölmiðlalögin á sínum tíma. Ég treysti því að hann sé forseti allra Íslendinga. Ég treysti því að hann sé samkvæmur þeim orðum sem hann viðhafði fyrr í sumar, að fyrirvararnir hefðu gerbreytt málinu. Nú liggur fyrir að þeir eru úti. Ég treysti því að forsetinn kynni sér málið, þvert á það sem stjórnarliðar virðast ætla að gera.

Málsmeðferðin í fjárlaganefnd minnti stundum á leikrit. Það var óskað eftir því að efnahags- og skattanefnd veitti málinu álit sitt. Ef menn óska eftir áliti einhverra er það væntanlega til þess að fara yfir það, ræða það og mynda sér skoðun. En meiri hlutinn var fyrir löngu búinn að mynda sér skoðun. Margir þingmenn Samfylkingarinnar mynduðu sér skoðun áður en þeir sáu samninginn, það liggur fyrir, það er til á prenti. Það var ekki rætt í nefndinni. Við óskuðum líka eftir að ræða málið innan fjárlaganefndar eins og siður er að gera, velta við hverjum steini. Því var hafnað. Málið var keyrt út og þá sagði hv. þm. Ásbjörn Óttarsson að þingmenn væru einfaldlega að biðja um að málið yrði rætt út í hörgul í þingsölum Alþingis. Og það er það sem við erum að gera. (Forseti hringir.)